131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:08]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum þetta frumvarp og fögnum yfirlýsingu hæstv. ráðherra áðan um að ráðherra ætlar með reglugerðarbreytingu að fara hærra með hámarksfjárhæð lána hjá Íbúðalánasjóði en upphaflega var áætlað. Einnig er mikilvæg sú yfirlýsing hæstv. ráðherra að fallast á að auka sveigjanleika til uppgreiðslu óhagstæðra lána til að mæta þörfum fólks með óhagstæð lán sem það vill skuldbreyta og til að verja sjóðinn uppgreiðslu en lántakendur geta nú ekki skuldbreytt óhagstæðum lánum nema flytja öll áhvílandi lán frá Íbúðalánasjóði.

Við munum við atkvæðagreiðsluna sitja hjá við breytingartillögu félagsmálanefndar um uppgreiðsluákvæði sem kveður á um heimild til að taka sérstaka þóknun bæði af almennum og félagslegum lánum. Sömuleiðis munum við ekki styðja það ákvæði 3. gr. sem heimilar skerðingu á hámarksláni sem nemur áhvílandi lánum með rökum sem ég lýsti við 2. umr. Að öðru leyti styðjum við frumvarpið og munum greiða fyrir því að það geti sem fyrst orðið að lögum.