133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:18]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að við fengum athugasemdir frá starfsmannafélagi Hólaskóla. Þar var engin athugasemd gerð við þessa málsmeðferð. Það er með ólíkindum að hv. þingmaður skuli tala svona um sinn gamla skóla, hræða starfsfólkið og tala um að verið sé að kippa örygginu undan skólanum. Það er fjarri lagi.

Með þessum lögum er Hólaskóli efldur. Það sem við breyttum í meðferðinni í hv. landbúnaðarnefnd var að við víkkuðum út starfssvið skólans og gerum skólanum kleift að taka upp fleiri námsgreinar en hann býður upp á í dag. Það er gríðarlega mikilvægt atriði fyrir Hólaskóla að fá stöðu háskóla. Þetta er nauðsynlegt ferli sem fara verður í gegnum og ég er sannfærð um það að allir starfsmenn sem nú starfa við Hólaskóla muni fá starf við háskólann á Hólum. Ég vona að hv. þingmaður (Forseti hringir.) hætti að hræða starfsfólkið.