133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:38]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um búnaðarfræðslu sem lýtur að Hólaskóla en með lagafrumvarpinu er Hólaskóla heimilað að starfrækja námsbrautir á háskólastigi og veita háskólagráður á tilteknum námssviðum. Til stendur að segja upp öllu starfsfólki Hólaskóla við þessa breytingu og ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs til að taka undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði ekki þurft að hafa þetta lagaákvæði í lögunum og tel það reyndar alrangt að svo sé gert og vísa í umsögn sem borist hefur um frumvarpið frá BSRB, sem er hagsmunagæsluaðili fyrir hluta starfsfólksins.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„BSRB telur að þrátt fyrir að verið sé að gera Hólaskóla að háskóla sé ekki um svo mikla breytingu að ræða að til þess þurfi að koma að leggja niður störf og segja upp starfsfólki. Með þessari breytingu er verið að setja réttindi starfsmanna og starfsfólk stofnunarinnar í óvissu.“

Síðan segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að í bráðabirgðaákvæðinu segi að starfsfólki stofnunarinnar skuli boðin störf hjá hinum nýja háskóla segir þar ekkert um hvernig réttindi þeirra, áunnin eða til framtíðar verði tryggð.“

Þetta er mergurinn málsins og hér er komin skýringin á þeirri óvissu sem hv. þm. Jón Bjarnason vék að gagnvart starfsfólkinu. Ég tek undir með honum að heppilegt væri og eðlilegt og sjálfsögð krafa að þetta lagaákvæði verði tekið úr lögunum og því breytt áður en við afgreiðum þessi lög frá okkur, sem í sjálfu sér eru mikið fagnaðarefni og allir þeir sem hafa tekið til máls um málið eru því hlynntir og telja að verið sé að stíga mikilvægt framfaraskref. Við fögnum því að sjálfsögðu, fögnum þeim mikilvæga áfanga í sögu Hólaskóla, en ég tel að þessu lagaákvæði þurfi að breyta.