133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[21:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að við fögnum öll þessum tímamótum. Ég veit að starfsfólk Hólaskóla fagnar því að Hólaskóli verði formlegur háskóli, ég tek alveg undir þau orð.

Hins vegar er eins og að hæstv. ráðherra skilji heldur ekki þennan lögformlega gjörning sem í gangi er þrátt fyrir velvilja hans og góðvilja í þessu máli sem ég dreg ekkert í efa. Þarna er um lögformlegan gjörning að ræða, fólki er sagt upp og ráðningarferli slitið. Þá ræður enginn einn ferlinu í sjálfu sér. Það er eins og að hæstv. ráðherra bara átti sig ekki á þessu, því miður. Kannski er hann svo hægri sinnaður eins og hann var áðan en það er að verða að tísku að þurfa alltaf að segja fólki upp hjá ríkisstofnunum þótt gerð sé minni háttar breyting.

Öryggið væri mest í þessu ef öllum efa væri eytt og fólkið fengi að halda óbreyttri ráðningu sinni og skólinn fengi að þróast áfram og þroskast eins og hann hefur gert undanfarin ár og í skjóli þessara nýju laga. Það held ég að væri langréttast þó að ég voni að þetta gangi eftir svona.

Ég vil bara minna hæstv. ráðherra aðeins á og vitna til umsagnar Hólamannafélagsins, félags hollvina Hólaskóla, sem varar við því að þetta verði gert og telur það ástæðulaust. (Gripið fram í: Að breyta þessu í háskóla?) Nei, að segja fólkinu upp. Það fagna því allir að honum verði breytt í háskóla. Það þýðir ekki að vera neitt að snúa út úr hér. Mér er þetta alvörumál og ég veit að hæstv. ráðherra er það líka og ég treysti því að hann muni af öllum sínum velvilja standa við það að allt gangi eins vel og kostur er. En þegar búið er að rjúfa ráðningarferlið opnar maður fyrir ferlið. Ég tel það ástæðulaust og að ekki eigi að gera það. Það er þetta fólk sem hefur byggt upp skólann. Það er þetta fólk sem þróar hann áfram (Forseti hringir.) og það á ekki að rjúfa ráðningarsamninga við það.