133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[22:48]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær hækkanir sem komu 1. júlí síðastliðinn eru tengdar kjarasamningum eins og kom réttilega fram hjá hv. þingmanni. En ástæðan fyrir því að ákveðið var að flýta starfi nefndarinnar var hins vegar að þessi samningur lá fyrir og svo líka til að þeir fengju hækkanirnar strax um mitt ár en ekki í haust, eins og stefndi í að yrði miðað við áætluð lok á vinnu nefndarinnar.

Það er því alveg ljóst að kjarabæturnar sem komu í sumar eru tengdar þessu samkomulagi. Þær komu fyrr og nýtast þeim fyrr og hækka kjör þeirra strax.

Það er hins vegar ekki rétt hjá hv. þingmanni að aldraðir hafi setið eftir. Öðru nær. Öll þau drög og línurit sem við höfum verið að skoða á síðustu missirum sýna að ráðstöfunartekjur eldri borgara prósentulega séð hafa hækkað meira en flestra annarra. Þannig að það er alls ekki rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni.

Það er alls ekki rétt að málefnum eldri borgara og öryrkja hafi ekki verið sinnt á síðustu árum. Öðru nær. Það hefur mikið verið lagt í að vinna með eldri borgurum og örorkulífeyrisþegum til þess að bæta kjör þeirra. Það hafa verið tekin stór skref fram á við í þeim efnum enda eru bæði kröfur þeirra og kröfur samfélagsins í þá veru.

Þannig höfum við mætt nýjum þörfum og nýjum kröfum og ítrekað verið gert nýtt samkomulag til að koma til móts við eldri borgara og örorkulífeyrisþega.

Ég tel því að með þessu samkomulagi séum við að reka ákveðið smiðshögg á (Forseti hringir.) störf ríkisstjórnarinnar síðustu tvö kjörtímabil.