136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:30]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu um Ríkisútvarpið en ég tel að það eigi ávallt að vera á fjárlögum frá ríkinu. Það er ekki við það unandi að Ríkisútvarpið, bæði sjónvarp og útvarpsstöðvar, keppi við einkamiðlana. Það verður að vera samkeppni á eðlilegum forsendum og þegar Ríkisútvarpið er annaðhvort á fjárlögum eða innheimtir svokallaðan nefskatt er ekki eðlileg samkeppni hjá útvarps- og sjónvarpsstöðvunum.

Ég held að hugmyndir sem eru í gangi um það að tempra auglýsingar í sjónvarpinu milli 7 og 10 á kvöldin sem eiga að vera dýrmætustu auglýsingatímarnir séu ekki nóg. Það er ekkert verið að tala um auglýsingar á Rás 1 eða Rás 2. Það á að vera óbreytt þar og það er ekki eðlileg samkeppni. Þess vegna eigum við bara að viðurkenna það að við viljum halda í Ríkisútvarpið og við eigum að hafa það á fjárlögum beint og sleppa þessum skrípaleik varðandi auglýsingar og annað. Við getum ekki boðið frjálsri samkeppni upp á það. Það er engin sanngirni í því ef Ríkisútvarpið fær 3–4 milljarða á fjárlögum eða í gegnum nefskattinn og getur síðan keppt á auglýsingamarkaðnum við aðrar útvarps- og sjónvarpsstöðvar. Þetta á að gilda bæði fyrir sjónvarp og útvarp.

Það er auðvitað sorglegt með útvarpið að þar hafa verið óeðlileg pólitísk afskipti gegnum tíðina. Það hefur verið nóg að einstaka ráðherrar hafi urrað og þá hafa fréttamenn og aðrir orðið hræddir, ekkert síður en á einkareknu sjónvarps- og útvarpsstöðvunum. Það þarf að koma í veg fyrir að við horfum upp á að fjölmiðlar, hvort sem þeir eru í ríkiseign eða einkaeign, séu ekki frjálsir fjölmiðlar í alvörunni.