137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[14:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég lagði til að sínum tíma að það yrði lagt í hendur efnahags- og skattanefndar að fjalla um þetta, sem er klárlega skattamál. Eins og ég gat um áðan gagnvart fyrirtækjunum hefur þetta ekkert að gera með þjónustu af því að þau nota ekki þjónustuna og gagnvart einstaklingum er þetta óháð því hvað menn horfa mikið og hvort menn noti sjónvarp yfirleitt. Sumir horfa eiginlega ekkert á sjónvarp lengur og ég þar með talinn, ég horfi bara á það á netinu. Eins með útvarp, margir hlusta mjög lítið á útvarp og aðrir meira, þannig að þetta er í rauninni ekki lengur þjónustugjald, þetta er skattur. Það verða allir að borga hvort sem þeir nota kerfin eða ekki og þess vegna finnst mér eðlilegra að þetta eigi heima hjá efnahags- og skattanefnd.