137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

147. mál
[21:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hérna er á margan hátt gamall kunningi. Það er nú að koma fram í þriðja sinn og í nýjum búningi í hvert skipti. Út af fyrir sig hefur frumvarpið fram að þessu tekið nokkuð góðum breytingum en ég óttast, virðulegi forseti, að þær breytingar sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var að mæla hér fyrir séu eins konar gálgafrestur sem hæstv. ráðherra er að reyna að afla sér. Annars vegar til þess að geta í senn fullnægt þeim skuldbindingum sem við höfum tekist á herðar og koma í veg fyrir þann vanda sem gæti stafað af fyrir sjávarútveginn ef við ljúkum ekki gerð þessa matvælafrumvarps og hins vegar að halda því áfram sem hæstv. ráðherra var að reyna að tala fyrir hér áður og fyrr að við værum ekki skuldbundin til þess að opna á heimildir til innflutnings á fersku kjöti með þeim hætti sem fyrri frumvörp kváðu á um.

Ég er út af fyrir sig ánægður með að hæstv. ráðherra skuli nú viðurkenna varðandi samþykkt þessa frumvarps að í því séu fólgnir umtalsverðir hagsmunir fyrir sjávarútveginn. Þetta var eitt af þeim grundvallaratriðum sem ég lagði áherslu á þegar ég mælti fyrir þeim tveimur frumvörpum sem ég bar pólitíska ábyrgð á hér í þinginu á sínum tíma. Þá var því tekið mjög fálega. Það voru margir spámennirnir sem þá risu upp á afturlappirnar til þess að segja okkur að þetta væri mjög fáfengileg bábilja og það væri ekkert sem benti til þess í þeim gögnum sem fyrir lægju að það væru neinir sérstakir hagsmunir í þessu máli fyrir íslenskan sjávarútveg eða annan útflutning á matvöru. Ég mótmælti því að sjálfsögðu enda vissi ég betur og þess vegna er það nokkur áfangi í málinu að hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli vera kominn upp að hliðinni á mér í þessari umræðu til þess að staðfesta það sem augljóst var, að það væri ekkert undan því vikist að innleiða þá matvælalöggjöf sem við höfðum skuldbundið okkur til á sínum tíma.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði líka hér áðan, Norðmenn eru í sambærilegri stöðu og við, standa utan Evrópusambandsins eins og við gerum enn þá a.m.k., eru aðilar að EES, eru aðilar að innra markaði Evrópusambandsins og hafa mikla útflutningshagsmuni. Þeir hafa hins vegar innleitt þessa matvælalöggjöf, þeir hafa gengið lengra en við, þeir hafa aflétt banni við innflutningi á lifandi dýrum. Þeir eru hins vegar í þeirri stöðu að fyrir það að við erum ekki búin að fullnusta okkar hluta málsins hafa þeir ekki getað notið góðs af því sem samþykkt þessa frumvarps mundi hafa í för með sér og hafa auðvitað haft miklar áhyggjur af því að það að við erum ekki búin að ljúka okkar hluta málsins kunni að hafa afleiðingar fyrir útflutningsatvinnuvegina þar, auðvitað sérstaklega fyrir útflutning á matvöru.

Í sjálfu sér er það rétt og nauðsynlegt að árétta það að þetta er áfangi á þessari leið og auðvitað er það svo að þessi matvælalöggjöf almennt talað, eins og margoft hefur komið fram, er í meginatriðum framfaraspor. Þarna er verið að taka í raun og veru yfir gríðarlega mikla vinnu sem Evrópusambandið vann í kjölfar búfjársjúkdómanna sem komu upp um og eftir aldamótin, Creutzfeldt-Jacobs sjúkdómsins o.fl., sem gerði það að verkum að Evrópusambandið fór í það að endurskoða frá grunni meira og minna allar forsendur matvælalöggjafar sinnar.

Á sínum tíma fengum við undanþágu frá innleiðingu matvælalöggjafarinnar eins og hún lagði sig. Það var svo niðurstaða sjávarútvegsins á sínum tíma að það væru hagsmunir greinarinnar að fá að taka yfir þann hluta matvælalöggjafar Evrópusambandsins sem sneri að sjávarútveginum vegna þess einfaldlega að mjög erfitt væri að búa við það að geta ekki flutt út matvæli í sæmilegu öryggi á grundvelli þeirrar matvælalöggjafar sem væri í gildi í Evrópusambandinu. Þannig var þetta um tíma og það er auðvitað út af fyrir sig veruleiki sem flest okkar hefðu gjarnan viljað hafa áfram að við værum undanþegin því að þurfa að taka yfir þann hluta matvælalöggjafar Evrópusambandsins sem sneri að búfjárafurðunum og framleiðslu á matvælum af landbúnaðarafurðum. Það var hins vegar ekki möguleiki vegna þess einfaldlega að sú breyting hafði verið gerð á matvælalöggjöf Evrópusambandsins í heild sinni að skil á milli sjávarútvegsins og landbúnaðarins voru úr sögunni og þess vegna urðum við að lokum að fallast á að aflétta þessu banni, aflétta fyrirvaranum sem við höfðum gert við matvælalöggjöfina sem tók sérstaklega til landbúnaðarins.

Það höfðu verið gerðar margar atrennur að þessu máli. Á sínum tíma hafði Evrópusambandið mjög leitað eftir því að við afléttum þessum fyrirvara. Því höfnuðum við, en svo var komið á árinu 2005 að þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, komst að þeirri niðurstöðu og fékk hana samþykkta í ríkisstjórninni á þeim tíma að ekki væri annað að gera en að fara í þá vinnu með Evrópusambandinu að skoða þessi mál efnislega, fara yfir það með okkar helstu sérfræðingum, yfirdýralækni og hans fólki, hvort hægt væri að standa þann veg að eftirliti með innflutningi á kjöti að það skaðaði ekki búfjárstofna okkar og hefði ekki skaðvænleg áhrif eða slæm áhrif á heilbrigði þeirrar matvöru sem við værum að vinna.

Niðurstaðan af þessu varð sú að hægt væri að koma fyrir því fyrirkomulagi á grundvelli matvælalöggjafar Evrópusambandsins, og þrátt fyrir að við afléttum þessum fyrirvara, að við gætum í senn tryggt heilbrigði dýrategunda okkar og um leið tryggt það að ekki væri smit í því kjöti sem yrði flutt hingað til lands þó hrátt væri. Þessi mál voru síðan í vinnslu á árunum 2005 og 2006 og fram á árið 2007 og í raun og veru voru allar línur orðnar ljósar í þessu máli strax á árinu 2006. Frágangsatriði hömluðu því á árunum 2006 og 2007 að þessum málum yrði lokið á þeim tíma. Það var svo á síðari hluta árs 2007 sem samþykkt var gerð í sameiginlegu EES-nefndinni, eins og hæstv. ráðherra rakti, sem kvað á um að við afléttum þessum fyrirvara með ákveðnum takmörkunum þannig að við viðhöldum t.d. áfram fortakslausu banni við innflutningi á lifandi dýrum.

Það er ekki svo að ekki hafi verið farið mjög rækilega ofan í það hvort hægt væri að styðjast áfram við fortakslaust bann við innflutningi á fersku kjöti. Á sínum tíma var af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins farið mjög rækilega ofan í þessi mál, bæði áður en fyrra frumvarpið var lagt fram í minni tíð og einkanlega eftir að því máli hafði verið frestað á sínum tíma þegar kallaðir voru til helstu sérfræðingar sem tiltækir voru bæði hér innan lands, hjá Matvælastofnun og á alþjóðlegum vettvangi. Niðurstaða þeirra var mjög ákveðin sú að til þess að geta innleitt matvælalöggjöfina þannig að það væri gert í samræmi við reglur Evrópusambandsins væri ekki hægt að viðhalda þessu fortakslausa banni þrátt fyrir að okkar vilji gæti hugsanlega staðið til þess, heldur yrðum við að reyna að tryggja þau markmið okkar með öðrum hætti þannig að við gætum haldið áfram að hafa virkt eftirlit með innflutningi á kjöti og þannig komið í veg fyrir smit og þannig komið í veg fyrir það að einhver hætta stafaði af fyrir búfénað okkar.

Ég vil aðeins vekja athygli í þessu sambandi á mjög ítarlegri greinargerð sem sá kunni maður Peter Dyrberg, sem hæstv. ríkisstjórn styðst m.a. við um þessar mundir, ritaði og skilaði af sér 11. ágúst 2008. Þar er farið mjög rækilega efnislega, lögfræðilega yfir þennan þátt málsins. Niðurstaða Dyrbergs er mjög skýr. Hann vísar til þess að þessi löggjöf er einhvers konar jafnvægi á milli hugmyndar Evrópusambandsins um frjálsa vöruflutninga og lýðheilsu. Þess vegna þegar verið er að innleiða þessa matvælalöggjöf þurfum við að taka tillit til hvors tveggja, þ.e. annars vegar öryggissjónarmiðanna gagnvart lýðheilsu manna og auðvitað heilbrigði dýra, og hins vegar hugmyndarinnar um frjálsa vöruflutninga. Hann vísar til allnokkurra dóma sem fallið hafa á vettvangi Evrópusambandsins um þessi mál og þeir eru mjög á einn veg.

Hann vísar t.d. til þess í áliti sínu þar sem hann segir sem svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Í fyrsta lagi er vert að vekja athygli á því að kerfisbundið eftirlit með innfluttu kjöti frá öðru EES-ríki virðist ekki heimilt. Það álit byggist einkum á úrskurðinum sem tekinn er saman hér að ofan“ — í sænska málinu sem hann hafði vísað til áður. — „Úrskurðurinn í því máli byggðist á tilskipun 89/662.“

Síðan segir hann:

„Kerfisbundið eftirlit með innflutningi er í algjörri andstöðu við hugmyndina um innri markað og verður eingöngu samþykkt að vel rökstuddu máli.“

Hann segir enn fremur hér:

„Það er ekkert sem útilokar það að íslensk yfirvöld geti gert skyndiskoðanir á innflutningi.“

Hins vegar er alveg ljóst mál af röksemdum fræðimannsins að það sé ekki hægt að ganga svo langt að halda uppi fortakslausu banni, það sé einfaldlega ekki í samræmi við þá löggjöf sem við höfum skuldbundið okkur að innleiða.

Við skulum ekki ímynda okkur að ekki hafi verið reynt á fyrri stigum að kanna það vel hvort hægt væri að komast undan því að innleiða þessa löggjöf. Það var orðið fullreynt. Það höfðu reynt ráðherrar í nokkrum ríkisstjórnum og margir stjórnmálaflokkar sem höfðu komið að þeim ákvörðunum og þessi mál voru orðin algjörlega fullreynd. Þess vegna, virðulegi forseti, hef ég nokkurn beyg af því að hæstv. ráðherra, þrátt fyrir mikinn vilja sinn, sé hér að fara inn á mjög hættulega braut. Ég veit að að baki hugmyndar hans vakir auðvitað sú fullvissa hans að þetta sé besta leiðin til að tryggja heilbrigði og stöðu íslensks landbúnaðar. Hættan er sú að hann lendi í þeirri stöðu að eftir 18 mánuði, við gildistöku þessa hluta matvælalöggjafarinnar, muni verða gripið til viðeigandi ráðstafana af hálfu Evrópusambandsins sem hefur þá nánast öll ráð í sinni hendi.

Ég held, virðulegi forseti, að í sjálfu sér væri hægt að ræða þessi mál mjög ítarlega. Ég ætla ekki á þessari stundu að gera það vegna þess að tími minn er heldur ekki nægur til þess. Það er alveg ljóst að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd mun þurfa allmikinn tíma til þess að fara yfir þessi mál. Þau hafa verið að vísu skýrð mjög mikið í meðferð þingsins á fyrri þingum en eru hins vegar þess eðlis að ekki veitir af upprifjuninni. Hér er líka boðuð breyting sem að mínu mati er í besta falli umdeilanleg og gæti verið hættuleg. Þess vegna þarf auðvitað af hálfu nefndarinnar að fara ofan í þessi mál með þeim fræðimönnum sem gleggst þekkja til. Það þarf að kalla eftir áliti utanríkisráðuneytisins, það þarf að heyra viðhorf fulltrúa okkar í sendiráðinu í Brussel. Það þarf að fara yfir þessi mál með fulltrúum Matvælastofnunar, það þarf að sjálfsögðu að kalla til þann fulltrúa sem á sínum tíma vann grundvallarálitið fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og hafði komist að þessari ótvíræðu niðurstöðu sem er eftir minni vitneskju í samræmi við mat nánast allra þeirra lögfræðinga sem hafa komið að þessu máli.

Þess vegna er það svo að það er auðvitað miður að lögfesting þessarar löggjafar hefur dregist úr hömlu. Þetta getur valdið hættu fyrir útflytjendur okkar og ekki síst við þær aðstæður sem nú eru þegar erfiðara er um sölu á til að mynda íslenskum sjávarafurðum en áður. Við vitum að ótti Norðmanna kemur ekki til af engu. Þeir telja sig hafa lögmæltar og tilefnisríkar ástæður til þess að ætla að dráttur á lögfestingu þessarar löggjafar hér á landi geti haft slæm áhrif fyrir þá. Þess vegna, virðulegi forseti, kallar þetta frumvarp á talsvert mikla vinnu.

Það er aðeins eitt mál svona í bláendann sem ég vil vekja athygli á. Eins og ég skil frumvarpið hefur verið tekin ákvörðun um það af hálfu hæstv. ráðherra að fara öðruvísi með málefni sem snúa að dýralæknum en ráðgert hafði verið í fyrra frumvarpi, fyrri frumvörpum raunar báðum. Í fyrri frumvörpum, ekki síst í því síðara, var reynt að stíga mjög varlega til jarðar varðandi þær skipulagsbreytingar sem óhjákvæmilegar væru vegna lögfestingar matvælalöggjafar Evrópusambandsins. Hér sýnist mér hins vegar vera horfið frá því. Hér á að ganga miklu lengra, hér er ætlunin að segja upp öllum héraðsdýralæknunum í stað þess að fara þá leið sem fyrra frumvarp gerði ráð fyrir og ég tel að hafi verið skynsamlegt. Þar var reynt að koma til móts við sjónarmið og hagsmuni dýralækna þó að ég viti að það hafi ekki verið gert að fullu, en mér sýnist á þessu frumvarpi að það sé algjörlega horfið frá þessu.

Virðulegi forseti. Tíminn leyfir ekki frekari orð um þetta og ég ákvað að fara almennum orðum um þetta mál að þessu sinni (Forseti hringir.) og vísa sérstaklega til þeirrar lögfræðilegu ráðgjafar sem fyrir liggur. Ég bendi á að ég óttast að þetta frumvarp sé byggt á mikilli óskhyggju og (Forseti hringir.) von um gálgafrest sem ég óttast að muni ekki fást. (Gripið fram í.)