138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[12:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í umræðu um 70. mál sem var rétt áðan reyndi ég að beina sjónum að því sem skiptir kannski mestu máli í endurreisn atvinnulífsins, sem er að koma í veg fyrir það að sé um að ræða lán til eigenda og kaup í eigendum og raðeignarhald og krosseignarhald og allt það sem menn hafa nefnt og komið hefur í ljós undanfarið. Hér er tekið á þessu að litlum hluta í 1. gr. Ég vil spyrja hv. formann viðskiptanefndar hvort rætt hafi verið í nefndinni að ganga lengra en þetta, því að hér er talað um að það eigi að upplýsa í hluthafaskrá um eigendur og um samstæðutengsl þeirra, sem er hugtak sem er mér dálítið framandi en byggist sennilega á því að dótturfélög eigi ekki 20% hvert í öðru því að þá teljast þau vera í samstæðu. Stundum er talað um 50% og vandinn er sá að þeir sem vilja spila á þetta eiga akkúrat 19,9% í hver öðrum og passa upp á það. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort rætt hafi verið að ganga lengra í þessu fyrir utan það að vita að eitthvert erlent fyrirtæki á Tortólu eigi fyrirtækið, en það segir ekkert voðalega mikið til um eignarhaldið.

Það sem mér finnst vanta mest í þessu er það sem hinn almenni hluthafi treystir á. Hann treystir á endurskoðendur og endurskoðendur sýndu bara rétt fyrir hrun og skrifuðu upp á mjög góða stöðu bankanna, allt í sómanum, allt í ljómanum. Ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar hvort rætt hafi verið um að auka ábyrgð endurskoðenda, þannig að þeir séu að segja satt þegar þeir segja eitt og annað á hluthafafundi.