138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[12:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Við ræðum við 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

Áður en ég fer yfir það minnihlutaálit sem ég er framsögumaður fyrir, 2. minni hluta viðskiptanefndar — það er athyglisvert að það eru enginn meiri hluti í þessu máli heldur tveir minni hlutar en það er önnur saga — en áður en ég fer yfir okkar minnihlutaálit vil ég taka fram að það er ýmislegt í þessu máli sem við í 2. minni hluta gerum ekki ágreining um. Það að ég fari ekki ítarlega í þau efnisatriði skýrist af því að við erum nokkuð sammála um þau. Ég ætla því að renna aðeins yfir minnihlutaálit 1. minni hluta, sem sagt stjórnarliða, og lýsa stuðningi okkar sjálfstæðismanna í viðskiptanefnd við þau atriði sem við tiltökum ekki sérstaklega í okkar umsögn. Þar á ég við til að mynda það sem lagt er til í 1. og 5. gr. frumvarpsins um skyldu hlutafélaga til að sjá til þess að upplýsingar séu alltaf réttar á hverjum tíma. Okkur þykir eðlilegt að gera slíka kröfu og gerum ekki athugasemd við það. Við gerum heldur ekki athugasemd við það að inn í lög um hlutafélög verði bætt við ákvæði um starfandi stjórnarformenn. Við tökum undir þau markmið sem þar er stefnt að eins og segir í áliti 1. minni hluta, með leyfi forseta, að minnka líkur á slíkum hagsmunaárekstrum, þ.e. milli eftirlits- og framkvæmdahlutverks í félögum, við styðjum þessi sjónarmið. Það sem við gerum fyrst og síðast ágreining við stjórnarliða í viðskiptanefnd eru þau efnisatriði er varða setningu kynjakvóta í framkvæmdastjórnir félaga.

Vík ég þá að nefndarálitinu en undir það skrifar auk mín sem hér stend hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson.

Eins og segir í álitinu styður 2. minni hluti það markmið frumvarpsins sem felst í því að hafa sem jafnast hlutfall kynja í stjórnum og í æðstu stöðum í viðskiptalífinu. Við erum svo sannarlega stuðningsmenn jafnréttis í viðskiptalífinu sem og annars staðar. Ágreiningurinn snýst fyrst og síðast um þá aðferð sem menn vilja nota til að koma þessu jafnrétti á. Við bendum einnig á að í ákvæði upprunalega frumvarpsins kemur fram setningin, að gætt skuli að kynjahlutföllum í stjórnum hlutafélaga, og að í því orðalagi, þetta frumvarp er búið að vera til umfjöllunar á nokkrum þingum, er ákveðin málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða þeirra sem vilja ganga sem lengst í boðvaldinu og lagasetningunni og okkar hinna sem viljum gefa viðskiptalífinu, atvinnulífinu og þeim sem þar eru ákveðið svigrúm til að leiðrétta þessi mál sjálf og teljum að hvatning í þessum efnum sé betri aðferð en boðvald.

Þá viljum við einnig benda á að fyrir rúmu ári síðan öðluðust gildi lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, og þar eru lagðar ríkar skyldur á fyrirtæki, m.a. um að skila skýrslum og setja sér jafnréttisáætlun. Við teljum að það sé alls ekki komin nægileg reynsla á þá lagasetningu til að fara að taka þetta skref núna. Þau lög voru mikil breyting frá því sem áður var en auk þess að leggja ríkar skyldur á fyrirtæki eru einnig í þeim lögum lögð á ákveðin sektarákvæði, þannig að ríkisvaldið hefur tæki núna til að beita fyrirtæki sem ekki uppfylla jafnréttislög dagsektum ef þeim þykir þurfa. Við teljum því algerlega ónauðsynlegt á þessu stigi málsins að fara fram með þessum hætti.

Auk þess kom það mjög skýrt fram í umfjöllun nefndarinnar og hjá þeim gestum sem kallaðir voru til eftir að breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar lá fyrir, gestum sem kallaðir voru til bæði frá Samtökum atvinnulífsins, Félagi kvenna í atvinnurekstri og Viðskiptaráði Íslands, ósk til löggjafans um að halda þeim samstarfssamningi sem skrifað var undir fyrir nokkrum mánuðum af þessum samtökum, og ég tek fram að allir stjórnmálaflokkar lýstu stuðningi sínum við þann samning með undirskrift sinni. Óskuðu þessi samtök, sem öll starfa á vinnumarkaði og öll eru einbeitt í því að bæta úr þeim halla sem sannarlega hefur verið, og ég er ekki að mæla bót, á annað kynið í stjórnum og við rekstur fyrirtækja hér á landi, eftir því að fá ráðrúm frá löggjafanum til að sjá árangur af þessu átaki sem rétt er nýhafið.

Breytingartillaga minni hlutans, meiri hlutans — þetta er orðið mjög ruglingslegt að breytingartillaga 1. minni hluta er breytingartillaga stjórnarmeirihlutans, ég vona að þingheimur átti sig á því þegar ég tala um alla þessa minni hluta, en breytingartillaga 1. minni hluta er rökstudd með því að gildistökuákvæðið sé ekki fyrr en 2013 og þess vegna sé verið að gefa fyrirtækjunum og þessum samtökum tíma til að bregðast við þessu. En ég er ósammála þessari aðferðafræði, ég tel að það sé vont verklag að fara í svona breytingar, koma þeim sem eiga að starfa eftir þessu að óvörum með að fara í slíkar breytingar. Jafnvel þó að þessi frestur sé hafður á er óbeint verið að hóta en atvinnulífið er að fara í átak og á það þá yfir höfði sér sem hálfgerða svipu eða refsingu að þurfa að undirgangast lagasetningu að þessu leyti. Mér finnst það draga úr gildi þessa samstarfssamnings vegna þess að fyrirtækin geti alltaf sagt: Fínt, við þurfum ekki að leggja okkur fram við þetta — þau sem eru andstæð þessum sjónarmiðum — það verður skellt á okkur lögum, við þurfum að gera þetta hvort sem er. Þetta dregur úr þeirri hvatningu sem ég held að sé nauðsynleg til að svona atriði nái fram að ganga, ekki bara sem einhver lagakvöð heldur að við finnum þetta hjá okkur sjálf. Það að við séum með einhverja lagasetningu hangandi yfir okkur rýrir gildi þess að við setjum okkur sameiginleg markmið og leggjumst öll á eitt við að gera þetta. Það fannst mér koma fram í máli þeirra gesta sem komu fyrir nefndina og ég vil nefna þar sérstaklega Höllu Tómasdóttur. Hún var mjög ákveðin í því sem hún sagði, hún var ekkert hrifin af þeim árangri sem við erum að ná núna, alls ekki. Hún er mjög óánægð með stöðuna eins og hún er í dag og ég get alveg tekið undir það með henni, en á sama tíma vildi hún ekki sjá kynjakvóta fyrr en þetta átak væri búið að fá það tækifæri og þann tíma sem því er ætlað. Það er miklu betra að árangur í þessum málum náist með jákvæðri hvatningu heldur en undir boðvaldi. Ég tek undir orð Höllu Tómasdóttur í þeim efnum.

Einnig var bent á það, og við tölum um það í nefndaráliti okkar, af hálfu umsagnaraðila, aðallega frá Samtökum atvinnulífsins, að þetta gangi gegn og passi illa við ákvæði íslenskra laga um stjórnarkjör sem eru mjög sérstök í íslenskum rétti og flækir allt stjórnarkjör vegna þess að 1. minni hluti gerir ráð fyrir að kosið verði endalaust þangað til kynjahlutföllum er náð. Það gengur gegn ákvæðum og anda laga um stjórnarkjör sem leggur mikla áherslu á minnihlutavernd. Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins fór rækilega yfir þessi sjónarmið og ég verð að lýsa okkur í 2. minni hluta mótfallin því sjónarmiði 1. minni hluta um að hægt sé að kjósa endalaust um þessi mál.

Ég ítreka að við erum mjög hlynnt því að hlutfall milli karla og kvenna í atvinnulífinu verði sem jafnast í stjórnum og við rekstur fyrirtækja, ekki bara atvinnuþátttakan, vegna þess að við teljum það vera svo augljóst, það liggur beint við og allar kannanir sýna það, og við getum tekið undir það að auðvitað næst betri árangur ef bæði karlar og konur koma að stofnun og rekstri fyrirtækja og sjónarmið beggja kynja ná fram að ganga í atvinnulífinu. Þetta liggur í augum uppi en það er eins og ég hef áður sagt, spurningin um hvernig við ætlum að koma þessu að. Við leggjum áherslu á að í stað þess að koma á jafnrétti með boðum og bönnum ætti jákvæð hvatning til fyrirtækja að vera ríkari og áhersla á samstarf við atvinnulífið. Og núna sérstaklega þegar þetta átak og þessi samstarfssamningur er í gildi er algerlega óásættanlegt að verið sé að demba svona lagasetningu fram og þeir gestir sem gerðu hvað mestar athugasemdir við þetta nefndu einmitt að þetta kæmi í rauninni algerlega að óvörum. Þeir bentu á að bæði hefði ráðherra jafnréttismála, félagsmálaráðherra, talað þannig að ekki væri von á þessu og viðskiptaráðherra hefði verið með yfirlýsingar sem bentu ekki til að þetta stæði til. Ég skal ekki gera lítið úr því að vilji löggjafans komi fram og löggjafinn setji lögin en ekki framkvæmdarvaldið, en við þurfum samt að vanda okkur og hafa samráð við þá sem eiga að vinna í þessu. Ég vek líka athygli á því að Skúli Jónsson frá fyrirtækjaskrá sem kom líka fyrir nefndina taldi þetta algerlega óþarft vegna þess að þessar upplýsingar og allt sem verið væri að biðja um væri fyrir hendi.

Þá var bent á að það vantaði viðurlagaákvæði í þetta. Hvað á að gera ef þessu ákvæði verður ekki fylgt? Ég vil segja um það að ef þvinga á fram eitthvert svona ákvæði verða menn að vera tilbúnir að vera með viðurlög ef ekki er farið eftir því. Svona er þetta ómarkvisst og nær engum árangri. Samanburður við norsku lögin var mikið ræddur í nefndinni og þar er helst að nefna að samanburðurinn við það þegar Noregur tók upp þessi lög, við samráðið, er ekki góður fyrir Ísland vegna þess að þar var þetta undirbúið vel og í samráði við aðila vinnumarkaðarins og atvinnulífið til að þetta gengi sem best fyrir sig. Þar var látið reyna á einhvers konar samkomulag og það er kannski frústrerandi að þurfa að viðurkenna það að 2013 stöndum við frammi fyrir því að þessi samstarfssáttmáli hafi ekki virkað. Ég skal standa hér 2013 og viðurkenna að sú leið sem ég lagði til hafi ekki virkað, ef svo verður. En ég trúi því ekki og ég neita að gefast upp í þessu máli, og jafnóþolinmóð að eðlisfari og ég er tel ég samt að við séum að ná árangri og við náum árangri með því að breyta hugarfari og því verður ekki breytt með svona þvingunaraðgerð. Þetta snýst ekki um að þvinga fram jafnrétti heldur að koma því á með jákvæðum hætti.

Að lokum bendum við í 2. minni hluta á, og það kom líka fram á fundum nefndarinnar, að ef löggjafinn og ríkisvaldið ætlar sér að setja svona lög þar sem þetta er þvingað fram á hinum almenna vinnumarkaði ætti hið opinbera kannski að ganga á undan með góðu fordæmi. Við höfum fjölmörg dæmi þess að þrátt fyrir öll lög er ekki eftir þeim farið og þeim ekki fylgt og það er ekkert gert í því. Við bendum á það í okkar áliti að það hafi vakið athygli okkar að við skipun í skilanefndir og slitastjórnir bankanna hefur ekki verið farið eftir þessum sjónarmiðum að gæta að jafnrétti. Svo hafa sömu skilanefndir og slitastjórnir líka virt þessi sjónarmið að vettugi. Eigum við ekki að byrja á að taka til heima hjá okkur áður en við förum að þrífa einhvers staðar úti í bæ? Eigum við ekki að klára jafnréttið hjá ríkinu þannig að við getum staðið hér og messað yfir fólki með allt í lagi heima hjá okkur? Það er ekki þannig núna. Ég held að það séu sterk rök til þess að við ættum að hugsa þetta fyrst heima hjá okkur.

Ég vek athygli á því, og það er kannski tilviljun, ef við erum svo upptekin af kynjahlutföllum að 1. minni hluti samanstendur af þremur konum og einum karli en 2. minni hluti samanstendur af einni konu og einum karli. Kynjahlutföllin eru því betri hjá 2. minni hluta en hjá 1. minni hluta, en það skiptir kannski ekki mestu máli í þessu máli. Aðalatriði málsins er að ég er algerlega tilbúin til að koma með öllum sem það vilja í mikinn jafnréttisleiðangur en gerum það saman, gerum það með jákvæðum hætti, hvetjum til þess, styðjum þennan samstarfssamning, höldum fólki við efnið en ekki með því að hafa einhverja þvingaða lagasetningu hangandi yfir höfði þess. Förum frekar hvatningarleið sem bara eins og í barnauppeldinu virkar yfirleitt betur. Hótanirnar koma þegar allt hitt hefur verið reynt. Við þekkjum það sem eigum ung börn að stundum grípur maður til neyðarúrræða þegar uppeldið er alveg að fara úr böndum en ég vil ekki meina að þetta sé farið úr böndum. Við eigum enn þá eftir að leyfa þessum merka samstarfssamningi, vil ég segja, að virka. Þetta er merkur sáttmáli sem þarna var gerður á milli aðila og ég óttast að menn hrökkvi í baklás og vinni ekki af sama metnaði og sama krafti og ef menn fengju til þess ráðrúm frá löggjafanum. Ég óska eftir því að þetta mál verði kallað aftur til nefndar á milli umræðna til þess að við getum tekið einn snúning á því enn. Ég trúi ekki öðru en að við getum komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að vinna þetta með þeim hætti sem við leggjum til í minni hlutanum.

Ég ítreka að það orðalag sem var að finna í frumvarpinu var ákveðin málamiðlun á sínum tíma sem ég held að í svona málum sé farsælt. Þar sem sú sem hér stendur er sannarlega kona vil ég, og ég get aðeins talað fyrir sjálfa mig í þeim efnum, en þrátt fyrir að vera mikill jafnréttissinni vil ég ekki sjá það að ég fái sæti í stjórn eða þingsæti eða hvað það sem ég er að sækjast eftir eingöngu á grundvelli þess að ég er kona. Mér finnst það vera það sem við í Keflavík kölluðum að vera súkkulaðikleina. Það er ef þú færð eitthvað vegna þess að þú átt bágt eða þú ert ekki jafngóður og hinir. Ég neita því alfarið að það að vera kona geri mig eitthvað verri og ég ætla bara að fá að berjast fyrir því sem ég vil og sækist eftir og ég krefst þess að fá jöfn tækifæri til þess. Jafnréttisbaráttan á að snúast um það, hún á ekki að snúast um að annar fái meira en hinn bara vegna kynferðis og það er sjónarmið sem ég mun berjast fyrir fram í rauðan dauðann.