140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrr. forsætisráðherra.

403. mál
[11:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er auðvitað misskilningur hjá hv. þingmanni að gagnrýna að hér skuli ekki hafa komið fram tillögur um aðrar nefndir. Fastanefndir þingsins geta tekið svona mál til umfjöllunar og það er eðlilegt að vísa því til fastanefnda þingsins. Það skal ekki skorta á þær tillögur á eftir. En saksóknarnefnd er ekki fastanefnd í þinginu. Hún er heldur ekki sérnefnd af tagi þingmannanefndarinnar sem hv. þm. Birgir Ármannsson á meira að segja að skilja sjálfur. Saksóknarnefnd á að vera saksóknara til aðstoðar. Hún á að hafa eftirlit með því, svo ég lesi úr sama texta og hv. þm. Bjarni Benediktsson, að saksóknari framfylgi ákvörðun Alþingis. Hún á að veita honum þá hjálp sem hann þarf á að halda til að honum sé fært að annast þau verk og ætlun löggjafans er líka, segir í þessu minnisblaði, að saksóknari geti borið einstök atriði er varða störf hans undir saksóknarnefnd.

Það er algerlega augljóst að saksóknarnefnd á ekki að gera það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson fer fram á. Það eru einhverjar dularfullar aðrar ástæður en virðing við lög og reglur sem knýja þingmanninn til að koma (Forseti hringir.) með þessa tillögu. Ég endurtek kröfu mína að forseti úrskurði um þetta mál eins fljótt og auðið er. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)