140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrr. forsætisráðherra.

403. mál
[12:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég áttaði mig á að dagurinn í dag mundi marka ákveðin þáttaskil varðandi þetta tiltekna mál og ræðst auðvitað af efni og niðurstöðu þess hvernig þau þáttaskil muni líta út. En það sem hv. þingmaður sagði í skrifum sínum var að þetta boðaði enn frekari þáttaskil en lytu eingöngu að þessu tiltekna máli. Mér fannst hv. þingmaður í raun vera að ýta undir þetta og gefa okkur eitthvað meira til kynna án þess að hann útskýrði það nánar. Hann sagði að þetta mundi hafa víðtækar afleiðingar, meiri en snerta þetta tiltekna dómsmál. Hv. þingmaður gerir það í skrifum sínum, þar víkur hann að einstökum efnisatriðum sem núverandi ríkisstjórn er að vinna að þannig að ómögulegt er að skilja þetta öðruvísi en svo að hv. þingmaður sé að segja að verði niðurstaðan önnur en sú sem hann kýs muni það hafa víðtækar pólitískar afleiðingar. Það verður ekki skilið öðruvísi en svo að hv. þingmaður sé að segja að það muni meðal annars hafa áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið.

Ég hafði ekki gert ráð fyrir því. (Forseti hringir.) Ég hafði gert ráð fyrir því að við mundum eingöngu fjalla efnislega um þetta (Forseti hringir.) tiltekna mál en hv. þingmaður er greinilega að gefa annað til kynna undir rós.