141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp í stutt andsvar við hv. þingmann um ákveðna þætti sem tengjast meðal annars Evrópusambandinu. Ég held að það sé kannski flestum ljóst sem eru hér inni að ég og hv. þingmaður deilum ekkert endilega sömu skoðun hvað það varðar. Ég er enn þeirrar skoðunar að það skipti miklu máli fyrir þjóðarhagsmuni til skemmri og lengri tíma að klára aðildarumsóknina.

Hins vegar vil ég taka undir með hv. þingmanni. Það skiptir gríðarlega miklu máli varðandi trúverðugleika umsóknarferlisins að öll gögn, kostnaður og hvað annað sé uppi á borðum þannig að menn viti nákvæmlega hvað það þýðir og hvað það kostar. Ég hef hins vegar þá trú að til lengri tíma skipti það þjóðina miklu máli að fá á borðið samning, sem okkar annars ágæta samninganefnd hefur barist fyrir, og að hann sé góður svo að hann geti þjónað íslenskum hagsmunum hvort sem er á sviði landbúnaðar, sjávarútvegs eða annarra mikilvægra atvinnugreina, svo ég tali nú ekki um íslensk heimili og neytendur.

Ég vil taka undir þá kröfu hv. þingmanns um leið og ég vil halda því til haga að ég er ósammála henni varðandi aðildarumsóknarferlið. Ég tel rétt að halda því áfram því þar gildi þjóðarhagsmunir.

Hins vegar er hægt að halda margar og langar ræður meðal annars um þann fund sem við áttum saman í sameiginlegu þingmannanefndinni héðan af hálfu Alþingis gagnvart þingmannanefnd ESB. Ég hef lesið greinar í blöðum frá öðrum íslenskum fundamönnum og spyr mig oft og tíðum hvort ég hafi verið stödd á sama fundi. Það er nú kannski efni í ræðu á öðrum vettvangi heldur en akkúrat í fjárlagaumræðunni.