141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, þótt við séum nú sammála um velflest er þetta eitt mál sem við erum ekki sammála um. Ég fagna því að þrátt fyrir það erum við sammála um að allur kostnaður við ferlið eigi að liggja fyrir og við eigum að vita nákvæmlega hversu miklum fjármunum við verjum í ferlið allt saman.

Ég vil nú spyrja hv. þingmann á móti. Þingmaðurinn segir að hún vilji að samningurinn liggi fyrir og það sé öllum í hag að klára viðræðurnar og sjá hvað er í pakkanum. Þarna erum við allsendis ósammála en ég vil spyrja hv. þingmann: Er það þannig og sama hvað það kostar? Segjum að það liggi fyrir að við fáum þá tölu. Ég hef grun um að viðræðurnar hafi kostað miklu meira en upp er gefið. Ég trúi ekki öðru en hv. þingmaður sé mér sammála um að taka þurfi afstöðu til þess þegar þær upplýsingar liggja fyrir, sem ég held að við verðum að kalla eftir. Ég vona að við getum verið sammála um það.

Síðan tek ég líka undir með hv. þingmanni um að það er kominn tími til vegna þess hversu margt hefur gerst í ferlinu öllu saman upp á síðkastið og síðan við tókum síðast umræðu, það er orðið mjög tímabært og rúmlega það að taka ítarlega umræðu um stöðuna á aðildarviðræðunum. Hvert þær eru að leiða okkur og hvernig við getum komið því þannig fyrir að íslenska þjóðin fái að kjósa um það. Að mínu mati á það að gerast í næstu kosningum en ég veit að (Forseti hringir.) hv. þingmaður er mér ósammála um það.