141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[01:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef í ræðum mínum hér í dag og í þessari umræðu reynt að vekja athygli á þeim vanda sem stafar af því hvernig fjárlagafrumvarpið er byggt upp. Hvernig það er til þess fallið að auka á verðbólgu og valda vandræðum á vinnumarkaði vegna hækkana á gjöldum. Ég mun koma aftur að því síðar, því ég held að það skipti einna mestu máli þegar kemur að því að reyna að meta fjárlagafrumvarpið og hvort breytinga sé þörf á því.

Ég vil í þessari ræðu minni vekja athygli á öðru máli sem ég tel nokkuð brýnt að við veltum fyrir okkur. Ég gríp hér niður í Peningamál Seðlabanka Íslands, nóvemberheftið, en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í spánni er áætlað að fjárfesting hins opinbera taki að vaxa á nýjan leik á næsta ári, m.a. vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aukna fjárfestingu samkvæmt svonefndri fjárfestingaráætlun fyrir árin 2013–2015. Í henni kom fram að fjárfestingaráformin væru háð því að hægt yrði að fjármagna þau með hækkun veiðileyfagjalds, arðgreiðslum af eignarhlut ríkisins í viðskiptabönkum og hagnaði af sölu eigna.“

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að ekki sé eðlilegt eða heilladrjúgt fyrir okkur að marka tekjustofna til ákveðinna verkefna með þessum hætti, sama hvort um er að ræða fjárfestingaráætlanir eða eitthvað annað. Ég tel að standa eigi þannig að verki að ríkið afli sér tekna, þær renni inn í ríkissjóð og þaðan fari peningarnir til verkefna sem ákveðið er að úthluta þeim til. Þessi beintenging á milli tekjustofnanna annars vegar og verkefnanna sem um er að ræða hins vegar tel ég ekki eðlilegt fyrirkomulag. Það opnar á alls konar, ég leyfi mér að segja, virðulegi forseti, undarlegheit í pólitískri umræðu, þar sem ákveðið er t.d. að leggja sérstakan skatt á einhvern þjóðfélagshóp til þess að reisa spítala eða gera eitthvað annað sem ríkið ætlar sér að gera. Með því að tengja saman skattheimtuna, hvers eðlis sem hún er, og síðan einstök verkefni þá sjáum við að ef þetta heldur áfram og er gert í ríkari mæli, fyrir utan það hversu margbrotin og flókin fjármál ríkisins verða, þá býður þetta líka heim ákveðinni pólitískri misnotkun. Það er eðlilegra að hafa skattheimtuna sér þannig að skattar séu innheimtir með almennum hætti, síðan sé fjármununum úr ríkissjóði ráðstafað.

Ég held að það að tengja saman, eins og til dæmis er gert, annars vegar veiðileyfagjaldið svokallaða og hins vegar fjármögnun á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sé auðvitað ekkert annað en einhvers konar pólitískt trix. Það er verið að reyna að réttlæta þessa skattheimtu umfram aðra skattheimtu með því að benda á eða tengja saman notkun fjármunanna. Ég vara við því að þetta verði að einhvers konar reglu eða viðmiði eða að þetta þyki eðlilegt. Þar með kemur líka upp umræðan um veiðigjaldið.

Virðulegi forseti. Ég vara við þessari hugsun. Hún er röng að mínu mati, að það sé skynsamlegt að ríkið taki til sín skatt úr atvinnulífinu, taki fjármuni úr fyrirtækjunum með sérstakri skattheimtu til þess að fjárfesta sjálft í kjölfarið, sem sagt með fjárfestingaráætlun ríkisins. Ef ríkið er svona klárt í því að fjárfesta, ef það kemur auga á svo góð tækifæri, hví að takmarka sig við þær upphæðir sem hér hafa verið nefndar í fjárfestingaráætlun ríkisins? Hví ekki að margfalda þessar áætlanir? Úr því að það er sannfæring fyrir að þessir fjármunir muni skila sér til baka til ríkisins í formi aukinna tekna.

Með öðrum orðum, það er heillavænlegra fyrir öll samfélög að stilla skattheimtunni í hóf og skilja sem mest eftir fyrir fólkið í landinu til að fjárfesta og til að taka ákvarðanir um fjárfestingar og/eða um neyslu, hvernig sem það stendur af sér, frekar en að opinberir starfsmenn og stjórnmálamenn séu að taka þær ákvarðanir. Ég held að þetta hljóti að vera nokkuð augljóst, virðulegi forseti.

Við sjáum afleiðingarnar af þessari hugsun ríkisstjórnarinnar. Við sjáum afleiðingarnar og munum sjá þær á næstu mánuðum og missirum í öllum sjávarþorpunum víðs vegar um landið. Í rekstri lítilla og meðalstórra sjávarútvegsfyrirtækja sem munu verða fyrir barðinu á þessari sérstöku skattheimtu sem er réttlætt m.a. með því að það vanti peninga í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Það vantar fjárfestingar víða um land. Það vantar fjárfestingar í þorpunum og bæjunum, en það vantar ekki fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Það vantar fjárfestingaráætlanir í atvinnulífið.

Við höfum misst af mörgum tækifærum á undanförnum árum til að byggja efnahagslíf okkar upp mun hraðar en raun varð. Af hverju gerist það, virðulegi forseti? Það gerist vegna þess að meginatvinnugreinarnar eins og sjávarútvegurinn, eins og orkustarfsemin og orkutengda starfsemin, hafa orðið fyrir barðinu á ríkisstjórninni og þeirri pólitísku óvissu sem hún hefur skapað með skattstefnu sinni og vandræðalegum tilraunum hennar til að gjörbylta kerfinu í sjávarútveginum.

Það er auðvitað mergur málsins og sá vandi sem við er að etja, að nú höfum við í höndunum fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir áframhaldandi skattahækkunum og áframhaldandi gjaldahækkunum. Allt til að fjármagna einhvers konar óskalista ríkisstjórnarinnar á sama tíma og fyrir liggur að ríkissjóður er allt of skuldugur, fyrirtækin í landinu er of skuldug og almenningur og heimilin eru of skuldug.

Það er sá vandi sem þetta fjárlagafrumvarp hefði átt að bregðast við. Það er sú staða sem þarf að takast á við. Það er þessi flótti frá raunveruleikanum, frá hinni raunverulegu stöðu sem verður svo áberandi þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað.

Yfirlýsingar stjórnarliða um að þetta sé svo gott fjárlagafrumvarp vegna þess að nú þurfi ekki að skera niður verða hjákátlegar þegar staðan er greind. Skuldirnar halda áfram að aukast.

Með þessu frumvarpi er, virðulegi forseti, og ég mun koma að því hér síðar í umræðunni, t.d. í raun og veru ekkert gert sem hjálpar okkur til þess eða auðveldar að afnema höftin. Við hefðum þurft að sjá allt öðruvísi frumvarp, allt öðruvísi nálgun og við hefðum þurft að sjá það líka undanfarin ár. Frumvörp sem hefðu byggt á því að auka hagvöxtinn hratt og örugglega, sem hefðu haldist hönd í hönd við stjórnarstefnu sem byggði á þeirri hugsun, sem hefðu verið til þess fallin að gera okkur auðveldara að afnema höftin sem hefði þýtt að frumvörpin hefðu þurft að ganga lengra og ná meiri árangri í því að skapa traust á því að við séum að fara að greiða niður skuldir. Við séum að létta á fjármagnsbyrðinni og þannig gera okkur kleift að afnema höftin, því þau skilaboð verða að vera til staðar í gegnum fjárlögin. (Forseti hringir.) Að það sé hægt að afnema höftin með því að létta skuldabyrði ríkissjóðs. Öðruvísi verður það ekki hægt, virðulegi forseti.