144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ölumst upp við þá heimsmynd að vestrænt lýðræðissamfélagið hafi vaxið upp úr ákveðnum hlutum. Einn af þeim hlutum er þrælahald. Þótt þrælahald viðgangist enn þá vissulega í formi mansals er það ekki liðið og yfirvöld viðurkenna það vissulega ekki sem löglega eða viðurkennda starfsemi. Annað slíkt fyrirbæri sem vestrænt lýðræðissamfélag átti að hafa gefið upp á bátinn eru pyndingar. Nú er komin út skýrsla vestan hafs, í Bandaríkjunum, vinaþjóð okkar, sem sýnir svo ekki verður um villst að pyndingar hafa verið stundaðar af bandarískum yfirvöldum um árabil. Það þarf meira en þessar tvær mínútur til að ræða þetta mál en það er þess virði að við minnum okkur á að þótt við séum vestrænt lýðræðisríki erum við ekki yfir það mannlega eðli hafin að ótti hefur tilhneigingu til að draga fram það versta í okkur. Við höfum margt að óttast en ekkert jafn mikið og óttann sjálfan.

Í fyrsta lagi verðum við að muna það, í öðru lagi eigum við að mótmæla þegar við sjáum þróunina ganga í átt frá siðmenningu, hvort sem það er hér eða meðal vinaþjóða okkar eða óvinaþjóða ef út í það er farið, höfum við nokkrar. Við eigum að mótmæla hátt og skýrt, við eigum ekki að leyfa neinum að halda í eina sekúndu að við séum hlynnt þeim pyndingum af hálfu Bandaríkjastjórnar sem nú hafa sannast þótt að vísu hafi lengi verið vitað um þær.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.