144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[21:01]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú ætla ég að reyna að hughreysta hv. þm. Össur Skarphéðinsson svo hann geti farið rórri heim í nóttina. Það góða við þetta er að ég held í sjálfu sér að við þurfum ekki að hafa áhyggjur, og ég hef ekki áhyggjur, af því að að þessari aðgerð genginni stendur Seðlabankinn ágætlega hvað þetta varðar. Það er alveg ljóst. Seðlabankinn sjálfur verður þá í þeirri stöðu, reyndar ekkert í mjög breyttri stöðu sem er nú það hlálega. Þetta er þannig að eigið féð var um síðustu áramót 90 milljarðar. Nú er búið að ákveða að Seðlabankinn geri upp með 6 milljarða hagnaði. Það var nauðsynlegt að ákveða það fyrir fram, ekki satt? til þess að hægt væri að finna út tekjufærslutöluna.

Þá kemur eigið féð til með að standa í 96 milljörðum kr. núna undir áramótin. Það verður fært niður um 26, fer í 70, en útistandandi er loforð um að ríkið leggi þar til viðbótar 52 milljarða ef á þarf að halda. Þá er Seðlabankinn kominn úr 96 í 70 og upp í 122 aftur, eða ígildi þess. (Gripið fram í: Með því loforði.) Með loforðinu, útistandandi. Það fyndna er að þegar við tökum svo gömlu eiginfjárviðmiðunina var hún fundin út þannig að það átti að reyna að stefna að því með reglum um arðgreiðslur og öðru slíku að eigið fé Seðlabankans væri sem næst 2,25% af verðmætum í fjármálakerfinu. Hver er sú tala í dag? 135 milljarðar. Þannig að allar þessar æfingar, þrátt fyrir allt breyta þær svo minna þegar upp er staðið að eigið fé Seðlabankans liggur að teknu tilliti til lánsloforðsins á svipuðum slóðum, aðeins hærra en það verður núna undir áramótin, aðeins lægra en það hefði átt að vera samkvæmt gömlu formúlunni. Það er allt og sumt.