144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[21:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það varð dálítið sérkennileg atburðarás hérna undir lok síðasta kjörtímabils. Þá var í fyrsta lagi þáverandi ríkisstjórn búin að læsa inni gjaldeyri slitabúanna innan íslenskrar efnahagslögsögu. Það skemmdi þá sem við eigum í höggi við og stundum eru kallaðir hrægammar, vogunarsjóðir, en mætti sennilega með nokkurri kurteisi nefna kröfuhafa. Í annan stað hafði Framsóknarflokknum tekist það með bægslagangi sínum — m.a. hv. þm. Frosta Sigurjónssyni þegar hann talaði um að það væri rétt að ganga á kröfuhafana með haglabyssum, formaður hans var miklu kurteisari í orðavali og talaði um að nota barefli — þarna lagðist allt á eitt, aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem þá sat og hins vegar lætin í Framsóknarflokknum. Þetta skapaði stöðu sem gerði kleift að ráðast í samninga við kröfuhafa á þeim tíma. Það var stoppað af Framsóknarflokknum, eins og við vitum. Það þurfti samstöðu um þá aðgerð og það var stoppað af Framsóknarflokknum. Þá hafði seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, opinberlega reifað það að hægt væri að fara í tilteknar aðgerðir sem gætu leitt til hins fræga 300 milljarða svigrúms. Því svigrúmi tel ég að Framsóknarflokkurinn hafi klúðrað.

Núna blasir það við að eftir verklausa 20 mánuði er loksins farið í það að undirbúa að lyfta gjaldeyrishöftum. Ég tel að það sé rétt hjá ríkisstjórninni. Það er eigi að síður flóknasta og líkast til mikilvægasta efnahagsaðgerð sem hefur verið ráðist í í sögu lýðveldisins.

Þá spyr ég hv. þingmann: Er það trúverðugt upphaf á þeim leiðangri að byrja á því að nota það sem ég leyfi mér að kalla bókhaldsæfingar til þess að taka út úr Seðlabankanum 25–26 milljarða til þess að efna einhver kosningaloforð þessara herramanna? Ég spyr sjálfan mig hvort það sé rétt.