144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[21:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi fara nokkrum orðum um frumvarpið. Ég stend að minnihlutaálitinu með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Guðmundi Steingrímssyni og get því vísað að nokkru leyti til þess sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hér áðan. Þetta er búin að vera góð og ágæt umræða og ég sé á viðbrögðum hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar að það var hollt hér í andsvörum af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að rifja upp atburðarásina í aðdraganda kosninga 2013. Þá lögðust framsóknarmenn þverir gegn því að leyst yrði úr höftunum með samningum sem hefðu tryggt úrlausn fyrir íslensk fyrirtæki, úrlausn fyrir íslenska lífeyrissjóði, og svigrúm upp á áætlað þá a.m.k. 300 milljarða og eignarhald almennings í landinu á bönkum. Þá mynd kallaði hv. þáverandi þingmaður og núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra landráð í frægri grein um páskana 2013, sem hann hefur reyndar síðan tekið niður af vefsíðu sinni. Það er vert að hafa þessa forsögu í huga nú þegar við sjáum vandræðaganginn yfir haftaafnáminu og sjáum þess engin merki að hæstv. forsætisráðherra geti staðið við stóru orðin um að afnám hafta verði íslensku ríki stórfelldur gróðavegur. Það er sú staða sem nú blasir við.

Virðulegi forseti. Hér sagði hv. þm. Össur Skarphéðinsson áðan afsakandi að hann gæti látið sér detta í hug að kalla þetta frumvarp brellu. Ég ætla að ganga lengra og segja: Þetta er augljós bókhaldsbrella. (Gripið fram í.) Það er ekkert augljósara sem bókhaldsbrella en æfing eins og þessi sem felur ekki í sér raunverulegan flutning á neinum verðmætum heldur tilfærslur skuldbindinga milli sama aðila, ríkis og Seðlabanka. Það verður enginn raunverulegur hagnaður hjá ríkinu við þessa breytingu þrátt fyrir að hann myndist bókhaldslega og sé réttlætanlegt að færa hann.

Það leiðir hugann að því hvort ekki væri eðlilegt að beita þeirri umgjörð sem hér er aftur í tímann á skuldaskil ríkissjóðs og Seðlabanka. Ég hygg að ef efni þessa frumvarps væri beitt á skuldaskil ríkissjóðs og Seðlabanka á árinu 2013 blasi við að síðasta ríkisstjórn náði afgangi á ríkisrekstri á starfstíma sínum. Ef menn ætla að nota svona brellur er rétt til að auðvelda samanburð og gera hann sanngjarnan og réttlátan aftur í tímann að beita honum líka á síðustu ár.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra gerir sig breiðan yfir góðum efnahagsárangri og talar um hinn mikla búhnykk sem okkur hafi áskotnast með miklu betri afkomu ríkissjóðs á þessu ári þá stafar sá afkomubati bara af tvennu. Meiri arðgreiðslum úr Landsbankanum en gert var ráð fyrir, sem er sannanlega tímabundið ástand og mun ekki vara til langframa, og svo hins vegar þessari æfingu. 21 milljarður af 44 í rekstrarafgangi þessa árs stafar af þessari bókhaldsbrellu. Þar af leiðandi ber að taka með ákveðnum fyrirvara mikilli umræðu um afgang af ríkisrekstri á þessu ári og mikinn viðsnúning á honum.

Þessi bókhaldslega breyting er síðan ásamt arðgreiðslunum notuð til þess að flýta skuldabixinu mikla, greiða hraðar til bankanna þær sérstöku gjafir sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gefa þeim í því bixi. Með öðrum orðum, það er gengið á eigið fé Seðlabankans til að framkvæma fjórðung af skuldaniðurfærslunni. Ekki eru búin til ný verðmæti og vert að undirstrika það aftur — engin ný verðmæti verða til. Það er í sjálfu sér gengið bókhaldslega á eigið fé Seðlabankans og það nýtt til þess að borga bönkum peninga, raunverulega peninga, hraðar en þeir bjuggust við. Og enn höfum við ekki fengið að sjá skuldaskilin sem okkur var lofað fyrir mörgum vikum, uppgjörið á kröfunum gagnvart bönkunum og hvaða verðmat verður lagt til grundvallar þegar greiddar verða inn til bankanna og lífeyrissjóðanna þær greiðslur sem leiða af skuldabixinu mikla.

Þá er eðlilegt að spurt sé: Er með þessari aðgerð verið að ganga á sjálfstæði Seðlabankans? Er verið að skaða sjálfstæði Seðlabankans? Við fórum yfir það vandlega þegar þetta mál kom fyrst inn á vormissiri. Þá kom einfaldlega í ljós að Seðlabankinn var ósáttur við upplegg málsins, gerði athugasemdir við að ekki væri fullkomlega ljóst hvernig Seðlabankinn gæti dregið á loforð ríkisins um framlag og það væri óvissu háð hvernig hann gæti náð aðgangi að auknu eigin fé þegar á þyrfti að halda. Það var bara vegna spurninga okkar þingmanna stjórnarandstöðunnar í nefndinni sem þetta kom yfir höfuð upp á borðið í heimsóknum Seðlabankans fyrir nefndinni og olli því að við stóðum gegn því í vor að frumvarpið yrði afgreitt út þar og þá. Það kom síðan ekki fyrr en eftir dúk og disk eftir miðjan nóvembermánuð inn í þingið og hafði greinilega þurft mikillar vinnu við og var til muna vandaðra. Það kom í ljós við gestakomu fyrir nefndina að helstu sérfræðingar í reikningsskilum höfðu komið að málum og það gaf okkur aukna tiltrú á uppleggið allt saman að heyra mat þeirra að málið væri í lagi. Ég held þess vegna að það sé ekki sjálfgefið að aðgerðin gangi í gegn sjálfstæði bankans og að athugasemdum sem maður hafði um þá þætti hafi að flestu leyti verið svarað.

Þá er eðlilegt að spurt sé hvort hér sé um óeðlilega ráðstöfun að ræða. Er hún óheimil eftir einhverjum viðmiðum? Er hún óæskileg? Ég held að þar komumst við í minni hluta nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að eðlilegt sé að stjórnarmeirihlutinn beri ábyrgð á henni. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það orkar nokkuð tvímælis að vera í óðagoti að byggja fjárlagafrumvarp og á þessum forsendum sem verða til með samþykkt frumvarpsins við uppgjör þessa árs. Það setur að manni ákveðinn ugg, sérstaklega þegar maður sér að verið er að tefla þessum bókhaldslega hagnaði inn í hrærigraut skuldabixins mikla. Það vekur manni ákveðna ónotatilfinningu, svo ekki sé meira sagt. Þess vegna er óhjákvæmilegt að meiri hlutinn beri ábyrgð á þessari ráðstöfun en við munum sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Virðulegi forseti. Að síðustu vil ég segja að það er mjög sérkennilegt að tefla inn í afgreiðslu fjárlaga bókhaldsbreytingu af þessum toga sem efnislegum þætti í að binda saman fjárlög. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að verja afkomubata þessa árs sem er fenginn með breytingunni til að flýta innborguninni í skuldabixið mikla. Tilkoma afgangsins hefur þess vegna efnisleg áhrif á það hvernig greiðslum er hagað úr ríkissjóði án þess, eins og ég sagði áðan, að nokkur efnisleg verðmæti hafi færst til. Það finnst mér almennt séð mjög varhugavert. Ég mundi halda að bókhaldslegur hagnaður af þeim toga sem skapast bara af reikningslegum tilfærslum eins og sama aðilans án nokkurra tilfærslna á verðmætum ætti bara að koma við fullnaðaruppgjör og slíkum hagnaði ætti ekkert að ráðstafa með sérstökum hætti, hann ætti ekki að koma til ráðstöfunar. Það væri eðlilegt að taka tillit til hans í lokafjárlögum eftir atvikum en hann ætti ekki að koma inn og hafa efnisleg áhrif á það hvort stórfelld fjárútlát verða úr ríkissjóði í umdeilanlegt verkefni árinu seinna eða fyrr.

Hér er með öðrum orðum verið að borga raunverulega peninga með matadorpeningum. Það er veikleikinn í málinu. Raunverulegir peningar, raunveruleg verðmæti, munu fara úr ríkissjóði vegna þess að í ríkissjóð renna matadorpeningar vegna breyttra skuldaskila milli ríkissjóðs og Seðlabanka.