145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er alveg sammála því að þetta er mannfjandsamlegt verklag þegar kemur að lyfjamálunum. Ég held reyndar að með því að vanáætla hluti geti menn líka verið að koma ákveðinni pólitík til leiðar. Ég held að við þurfum alltaf að hafa það í huga þó svo að við ræðum það kannski ekki meira akkúrat hér og nú, því að mig langar að nota síðustu sekúndurnar mínar til þess að koma inn á breytingartillögu minni hluta hv. fjárlaganefndar sem varðar kjaramál eldri borgara og öryrkja.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvenær væri hægt að fara í kjarabætur til þessara hópa ef ekki núna þegar það er þó alla vega tekjuafgangur í ríkissjóði og þegar 95% þjóðarinnar segja í skoðanakönnunum að þau telji að þessi hópur eigi að fá sambærilegar ef ekki meiri hækkanir en voru á almennum vinnumarkaði? (Forseti hringir.) Hvenær ef ekki núna ætti að ráðast í slíkar kjarabætur?