145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:45]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Ég mun reyna að svara henni eftir bestu getu. Það er rétt hjá hv. þingmanni að breytingartillagan er runnin frá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni. Ástæðan fyrir því að við leggjum til að 27 milljónir fari til fangelsis á Litla-Hrauni er sú að þetta er sú upphæð sem Litla-Hraun þurfti að skera niður um á síðastliðnu ári. Þetta er einfaldlega til þess að koma því aftur á réttan kjöl, af því að sá niðurskurður sem hefur verið hefur komið Litla-Hrauni í sérstaklega slæma stöðu. Það er full ástæða til að veita meiri pening í þennan málaflokk. Þess vegna gleðst ég mjög að sjá að verið sé að setja meiri pening hér í fjáraukalögum, af því að það þarf. Hins vegar er ástæðan fyrir því að við viljum eyrnamerkja þessa tillögu sú að þetta er rekstrarlegs eðlis en líka af því að það voru gerðar aðhaldskröfur sem hafa komið einstaklega illa við stofnunina, m.a. á liðnu ári. Og, já, við munum gera breytingartillögu við fjárlög sömuleiðis til að reyna að tryggja rekstrargrundvöll Litla-Hrauns og annarra fangelsa á Íslandi mun betur.