146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

athugasemdir forseta um orðalag þingmanns.

[15:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég skora á forseta að gera það að sið hér að þegar ráðherrar svara ekki þingmönnum eða spyrja á móti þegar krafist er skýrra svara — við förum hér með eftirlitshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu og það gerist ítrekað hér að ráðherrar æfi sig í þeim leik að svara engu, vera aldrei skýrmæltir. Og það hefur jafnvel komið fyrir að ráðherrar hafi farið hér með rangt mál. Það hefur ítrekað verið sannað.

Ég legg til að í staðinn fyrir að skammast út í hvernig þingmenn klæða sig eða hvaða orð þeir nota sem farið gætu fyrir brjóstið á forseta, að forseti taki sig til og sýni að þetta er forseti Alþingis, ekki forseti ráðherra, og láti ráðherra hreinlega heyra það þegar þeir vanvirða Alþingi hér trekk í trekk, árum saman, áratugum saman. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)