148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra stendur í stórræðum um þessar mundir. Í gær stóð hún í þessum ræðustól og lét á sér skilja að samningatregða ríkisvaldsins við ljósmæður væri vegna þess að þær eru í sérstöku stéttarfélagi, sem raunar er 100 ára um þessar mundir. Á öðrum vettvangi stendur hæstv. ráðherra ásamt öðrum að því að segja upp samningum við Hugarafl, samtök sem náð hafa eftirtektarverðum árangri í því að hjálpa fólki sem á við geðræn vandamál að stríða, hjálpa því í sínu bataferli með öðrum aðferðum en lyfjagjöfum og hefðbundnu sambandi læknis og sjúklinga. Ekki verður betur séð en að átt hafi sér stað nokkur sinnaskipti hjá hæstv. ráðherra í málefnum Hugarafls, en á síðasta kjörtímabili spurði hún þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra út í fyrirhugaðar lækkanir á framlögum til samtakanna sem hún var augljóslega ósátt við og hafði þau orð þá að samtökin hefðu, með leyfi forseta, „markað sér mikla sérstöðu á Íslandi.“

Þessi mikla sérstaða skal nú rofin. Nú sjá samtökin Hugarafl fram á að 15 ára samstarfi þeirra við heilsugæsluna verði rift og þegar beðið er um skýringar verður fátt um svör. Aðstandendur Hugarafls sjá þetta sem stofnanavæðingu og kerfisvæðingu á starfsemi sem hingað til hefur verið rekin á jafningjagrundvelli.

Átta hundruð manns missa þar með þá þjónustu sem þeir hafa notið og vita ekki hvað við tekur. Þetta er fólk sem telur sig vera á batavegi í því umhverfi sem Hugarafl hefur búið því. Eins og Grétar Björnsson sem veiktist ungur á geði sagði í Morgunútvarpi Rásar 1 í morgun, með leyfi forseta:

„Það sem er í húfi (Forseti hringir.) er mitt öryggisnet.“