148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

lyfjalög.

427. mál
[16:49]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsöguna. Við Íslendingar höfum verið íhaldssöm í lyfsölu miðað við flesta nágranna okkar í Evrópu. Ég fagna þessari breytingu sem kemur, eins og mikið af okkar vönduðustu löggjöf, beint frá Evrópusambandinu.

Það er tvennt sem ég vildi spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra að. Með þessari breytingu er opnað á lyfsölu í gegnum netið. Það er ansi byltingarkennt fyrir Íslendinga og okkar íhaldssömu lyfsölu. Sér hæstv. heilbrigðisráðherra þá fyrir sér aukið frjálslyndi í lyfsölu almennt, svo sem í almennum verslunum, bæði ólyfseðilsskyld og lyfseðilsskyld lyf?

Í annan stað vildi ég spyrja um lyfjamiðlara. Ég las skilgreininguna í greinargerðinni og í frumvarpinu sjálfu. Ég er ekki enn þá alveg klár á því hvað lyfjamiðlari er. Hann virðist ekki vera heildsali, ekki innflytjandi, ekki framleiðandi og ekki smásali. Ég vil bara fá svar við því hvert hlutverk og ábyrgð lyfjamiðlara er.