148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

lyfjalög.

427. mál
[16:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í heimild til netverslunar. Lyfjamarkaður er ekki bara hér á landi heldur er hann í það minnsta samevrópskt fyrirbrigði ef ekki alþjóðlegt. Við höfum sett svo stífar kröfur um meðhöndlun og sölu lyfja að sennilega eru fáir markaðir með jafn miklar samkeppnishindranir vegna opinbera regluverksins og þessi, sér í lagi fyrir jafn lítinn markað og hér er um að ræða. Þess vegna er það vissulega fagnaðarefni að við séum hér að horfa upp á leyfisveitingu til netverslunar með lyf, sem gæti verið verulegt framfaraskref. Ég velti fyrir mér og langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í hvaða áhrif það hafi. Veitir það heimildir til millilandaverslunar með lyf í gegnum vefverslun? Ég spyr einfaldlega vegna þeirrar vanþekkingar sem ég hef á málaflokknum.

Ég átta mig bara ekki á því hvort þetta veiti heimildir fyrir það. Við vitum auðvitað og það er fagnaðarefni að hér sé tekið á þeim vanda sem ólögleg netverslun með lyf er þar sem verið er að selja lyfleysur eða jafnvel eitthvað gríðarlega skaðlegt sem er allt annað en það er sagt vera. En það væri áhugavert ef þetta opnaði á einhverjar heimildir og aukna samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur. Ég hefði í fyrri spurningu viljað spyrja hæstv. ráðherra út í það: Er þetta opnun á innflutning á lyfjum í gegnum þessa heimild?