148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

skaðabótalög.

441. mál
[17:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um frumvarp um breytingu á skaðabótalögum og ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma með breytingar á þeim því að það er löngu tímabært.

Ég veit ekki hvort það er tilviljun en það hafa orðið tvær veigamiklar breytingar á skaðabótalögunum, önnur var gerð 1993 og hin 1999 og ég lendi í umferðarslysi 1993 og 1999, þannig að ég hef kynnst þessum málaflokki frá allt annarri hlið en flestir. Það er ýmislegt sem þarf að skoða hérna. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra, það þarf að endurskoða þennan málaflokk frá grunni, aðallega þann hluta er varðar rétt tjónþola til þess að ná rétti sínum fyrir dómstólum. Vegna eigin reynslu þá veit ég að það er eiginlega vonlaust dæmi. Eftir að maður hefur lent í umferðarslysi og er óvirkur í nokkur ár er það ávísun, því miður, á fátækt. Það segir okkur að þessar bætur eru nú ekki stórfenglegar og þá þarf viðkomandi tjónþoli að gera treyst því að dómskerfið sjái til þess að hann fái gjafsókn.

Þrautagangan við að fá gjafsókn var slík að ég hefði aldrei getað trúað að hún væri eins mikil og hún var í mínu máli vegna þess að það tók nokkur ár að fá gjafsókn, út af fáránlegum hlutum sem eiga ekki að koma gjafsóknarmáli við. Þess vegna hef ég oft velt fyrir mér í bótamálum því sem gleymist alltaf að ræða og það eru bótasjóðirnir, svokölluð tryggingarskuld. Siðaðar þjóðir gera upp þessa tryggingarskuld yfirleitt á fimm eða tíu ára fresti. Á Íslandi er hún aldrei gerð upp.

Við vitum afleiðingarnar af því. Í einu tilfelli fór svona tryggingarskuld á flakk, fór til lágskattaeyja og endaði sem lúxusíbúð og að lokum sem veð í sundlauginni á Álftanesi. Það segir okkur að þessa peninga — sem hafa verið kallaðir fé án hirðis vegna þess að þeir virðast eiginlega vera bara leikpeningar tryggingafélaganna — þarf að gera upp reglulega og nota það uppgjör til þess að bæta stöðu þeirra tjónþola sem þurfa virkilega á að halda t.d. gjafsóknum og öðru, til að tryggja það að þeir hafi einhvern smá möguleika til að berjast við tryggingafélögin. Tryggingafélögin hafa ótakmarkaða peninga og fjölda lögfræðinga til þess að takast á við tjónþolana. Það höfum við tjónþolar ekki.

Ráðherra nefndi örorkumatið og það er eiginlega eitt það furðulegasta við þessi mál. Ég er eiginlega sammála því að það þarf að setja einhver bönd á þetta. Öll þau örörkumöt sem ég hef farið í — ég hef aldrei farið á sama staðinn í mat, þau hafa verið hingað og þangað um allan bæ þar sem maður þarf að afklæðast og í sumum tilfellum var maður að afklæðast fyrir opnum gluggum. Svona aðstæður á ekki að bjóða neinum upp á. Ég lét mig hafa það en ég spyr mig hvernig ég hefði brugðist við ef þetta hefði verið mál dóttur minnar eða eiginkonu eða einhverra sem hefðu þurft að standa í sambærilegu mati.

Það er ýmislegt hérna sem þarf að taka til endurskoðunar og líka það að þessar upphæðir sem eru undir eru virkilega lágar. Það er alveg sama hvernig á það er litið vegna þess að í flestum tilfellum tekst tryggingafélögunum að semja vegna þess að fólk er komið í þá aðstöðu að það á ekki annarra kosta völ til að lifa af en að semja um einhverjar lágmarksbætur frá tryggingafélaginu. Ég hef verið að reyna að kynna mér hvernig þetta er og í flestum tilfellum virðist mér vera að fólk sé að fá kannski einn fjórða eða einn fimmta af því sem það ætti að fá með réttu. Tryggingafélögin vilja auðvitað helst ekki borga neitt og þau benda á það að þau vilji helst ekki borga neitt undir 15% mati á miska og fjárhagslegri örorku sem er auðvitað kolrangt vegna þess að það að missa heilsuna er grafalvarlegt mál og á ekki annað að vera ef maður er tryggður, ég tala nú ekki um það þegar fólk er tryggt, eiginlega tvítryggt, þegar maður er tryggður ökumannstryggingu og er í 100% rétti en færð samt ekki bæturnar og þarft samt að berjast.

Maður hlýtur að spyrja sig hvernig þetta er hægt. Eins og í mínu tilfelli, ég er búinn að vera að berjast núna í málinu frá 1999, í nær því 18 ár, og það er núna í Hæstarétti. Ég er búinn að fá 400 þús. kr. útborgaðar sem 5% miska. Það eru nú öll ósköpin og bíllinn gjörónýtur og ég í stóraðgerð. Hvernig var þetta hægt? Jú, þetta var hægt með því að ljúga upp sýkingum og einhverju sem átti hvergi þarna heima og þá þurfti ég að sanna sakleysi mitt gagnvart því sem var hrein og klár lygi. Ég þurfti að sanna sakleysi mitt til að fá gjafsókn sem síðan vatt upp á sig. Loksins þegar ég fæ gjafsóknina og loksins þegar ég er búinn að koma málinu á þann rekspöl sem það er og búinn að fá mat og allt saman á mínu tjóni, nei, þá kemur það undarlegasta frá Héraðsdómi Reykjavíkur: Málið er fyrnt. Hvernig geta mál fyrnst þegar maður hefur ekkert í höndunum til þess að gera kröfu vegna þess að maður fær ekki gjafsókn til þess að geta gert kröfuna til þess að fá matið? Það eru svona gildrur sem tryggingafélögin beita.

Ég hvet ráðherra til þess að sjá til þess að endurskoða skaðabótalögin frá grunni. Þau eru gömul og það er löngu tímabært að endurskoða þau. Það þarf líka að endurskoða þetta frá mannúðarsjónarmiði vegna þess að fyrir flesta sem lenda í slæmum slysum er það nóg, miklu meira en nóg að berjast við það að ná heilsu aftur og þurfa ekki að standa í því að berjast við fjársterk tryggingafélög sem geta í krafti sinna peninga og fjölda lögfræðinga gert liggur við það sem þeim sýnist. Þess vegna er það númer eitt, tvö og þrjú, ég ítreka það.

Ég spyr ráðherra hvort að hún sé ekki sammála mér í því að við verðum að tryggja það að fólk sem lendir upp á kant við tryggingafélögin og er að berjast fyrir því að fá bætur eftir slys sem það sannarlega hefur orðið fyrir, hafi tryggingu fyrir því í lögum að það fái gjafsókn og það geti varið sig. Mér finnst líka sjálfsagt að inni í þeirri gjafsókn séu skýr skilaboð um það að ef málið vinnst þá beri tryggingafélaginu að borga þá gjafsókn til baka þannig að ríkið verði ekki fyrir neinu tjóni. Ef eitthvað út af ber þá getum við líka notað bótasjóðina til að sjá til þess að þeir dekki allan kostnað. Ég bendi á að þar af leiðandi geta tryggingafélögin minnkað innkomu sína í bótasjóðina. Þau hóta nú þegar við þessa litlu breytingu sem ráðherra er að gera að það þurfi að hækka iðgjöldin um, skilst mér, 20–30 þús. kr. Ég segi bara: Ókei, lækkið innkomuna í bótasjóðinn. Gerið upp bótasjóðinn. Notum þessa peninga því að þeir eru þarna inni í þessum sjóðum á kennitölu viðkomandi tjónþola.

Annað í þessu er líka leyndin, að það skuli vera hægt að setja stórar upphæðir á kennitölu tjónþola og hann á enga möguleika á að vita hversu há upphæðin er eða hvað verður um hana. Þar af leiðandi, út af þeirri leynd, geta tryggingafélögin sett inn í tjóni segjum 200 milljónir í bótasjóðinn en borgað út 20. Hvað verður þá um hinar 180 milljónirnar sem verða eftir inni? Jú, það verður fé án hirðis, þar af leiðandi verða það peningar sem verða svona keppikefli til að nota til þess að græða á.

Ég er ánægður yfir því að það sé verið breyta þessum lögum og styð ráðherra fullkomlega í því að halda áfram breytingum og ég vona heitt og innilega að hún sé sammála mér í því að við tökum skaðabótalögin í heild sinni til endurskoðunar eins fljótt og hægt er.