148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[17:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra gróf undan trausti og trúverðugleika nýs dómstigs. Og það leiðir til þess að ég segi tæpitungulaust að ég treysti ekki ráðherra sem hagar sér þannig. Það ætti að vera augljóst. Það má alveg vera hrokafullt ef hæstv. ráðherra sefur eitthvað betur um nætur við að kalla það hrokafullt. Satt er það. Það er það sem stendur eftir.

Ég get alveg sagt að það er eitt sem ég hef efnislega að athuga við frumvarpið og er í 2. gr., að dómendur endurupptökudóms eru skipaðir af ráðherra sem ákveður hvor þeirra sem tilnefndir eru af hverjum tilnefningaraðila verði aðalmaður og hvor varamaður. Eina ástæðan fyrir því að ég hef eitthvað við þetta athuga er sú að miðað við vinnubrögðin sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur sýnt, og sér í lagi viðbrögðin við eftirmálunum, gerir að verkum að ég vil helst ekki að hæstv. dómsmálaráðherra komi þar nokkurs staðar nálægt hver verði dómari yfir höfuð.

Hæstv. ráðherra má alveg finnast það hrokafullt ef það er eitthvað betra fyrir hana. Það má alveg standa þannig mín vegna. Mér er bara alveg slétt sama. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur unnið sér inn fyrir þeirri orðræðu sem hún situr undir. Því eftir það sem á undan er gengið er hvorki iðrun né neitt sem bendir til þess að hæstv. ráðherra myndi gera neitt öðruvísi ef hún stæði aftur í sömu stöðu og í sömu sporum, fengi sömu viðvaranir frá sama fólkinu og seinast. Og það er það sem hræðir mig. Ég stend ekki hér og tala svona við hvaða ráðherra sem er. Allir ráðherrar gera mistök, allir þingmenn gera mistök, öll gerum við mistök. Það er eitt og sér eðlilegt og allt í lagi. En við verðum að geta horfst í augu við þau og lært af þeim. Það er grunnkrafa á hendur þeim sem fer með jafn viðkvæmt vald og að setja dómara.

Ég tók eftir því, í svari hæstv. dómsmálaráðherra, að hún svaraði ekki spurningunni. Mig langar því að spyrja aðeins nánar. Ef hæstv. dómsmálaráðherra stæði aftur í þeim sporum sem (Forseti hringir.) hún stóð í í byrjun júnímánaðar og lok maí á seinasta ári, mundi hæstv. ráðherra gera hið sama?