150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[12:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir. Það kom skýrt fram hjá hv. framsögumanni að það eru áhyggjur af íbúðum fyrir öryrkja. Það verður bara að segjast alveg eins og er að þótt þarna komi fram að um 9% af 2.123 íbúðum hafi skilað sér til öryrkja þá erum við aðeins tala um í kringum 180 íbúðir eða rúmlega það. Setjum það í samhengi. Ég held að Brynja – hússjóður Öryrkjabandalagsins hafi hætt að taka við umsóknum þegar komnir voru um 600 á biðlista. Tökum dæmi. Teljum hversu margir einstaklingar hjá sveitarfélögunum, öryrkjar, eru að bíða eftir íbúðum. Þar er þörfin alveg gífurleg. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að það er óásættanlegt að öryrkjar séu á almennum leigumarkaði að borga frá, eftir því sem ég hef séð, 50% og alveg upp í 80–90% af tekjum sínum í húsnæði. Það segir sig sjálft að þegar fólk er komið í þá aðstöðu að þurfa að borga svona gífurlega stóran hluta af tekjum sínum í húsnæði á það ekki fyrir nauðþurftum. Þeir eiga meira að segja í basli við að eiga fyrir mat, lyfjum og öðru sem búa nú þegar í félagslegri íbúð. Fólk á kannski 35.000–50.000 kr. á mánuði fyrir öllum öðrum nauðsynjum en húsnæðinu. Þess vegna verður að tryggja að þetta fólk fái húsnæði og sé ekki skilið eftir. Því miður er ég hræddur um að í þessu tilfelli verði það þannig að biðlistar muni lengjast.