150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[12:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og geri ráð fyrir að ég túlki það rétt að hv. þingmaður sé að meina í samráðsgáttinni þegar hún lýsir því að Reykjavíkurborg hafi áður komið að borðinu, þ.e. áður en kemur að þinglegri meðferð málsins. Gott og vel, þá er bara skoðanaágreiningur á milli okkar vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að sú vinna sem þar á sér stað sé fyrst og fremst á vegum framkvæmdarvaldsins og þar með eigi löggjafinn eftir að sinna sinni vinnu fyrir utan það að oftar en einu sinni, á þeim stutta tíma sem við höfum verið að þróa þetta verklag, hefur komið fyrir að umsagnaraðilar átti sig ekki á því að breytingar verða á málinu á milli þessara tveggja meðferða, ef svo má segja.

Mig langar til að beina sjónum aðeins í seinna andsvari að umsögn sem barst frá Félagsbústöðum sem ég held að allir geti tekið undir af sanngirni að eigi hagsmuna að gæta. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í lokaorð í þeirri umsögn:

„Telur félagið þannig að veruleg hætta sé á að tilteknir hópar fólks, sem nú njóta þjónustu Félagsbústaða, verði þannig hliðsettir (Forseti hringir.) næstu tvö til þrjú árin. Telur félagið því nauðsynlegt að bráðabirgðaákvæði c-liðar 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins verði endurskoðað. (Forseti hringir.)

Lýsir félagið sig hér með reiðubúið til að veita aðstoð við þá vinnu.

Fulltrúar félagsins eru reiðubúin að koma á fund nefndarinnar …“

Taldi meiri hlutinn það líka óþarft af því að það hefði komið fram áður (Forseti hringir.) eða telur nefndin að í breytingartillögum hafi nefndin orðið við öllum óskum þessara aðila?

(Forseti (GBr): Forseti biður þingmenn að virða tímamörk sem eru knöpp.)