150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[12:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að spyrja: Er stjórnarmeirihlutinn, alveg óháð því um hvað var samið í lífskjarasamningnum eða ekki, einfaldlega sáttur við þá forgangsröðun að þarna sé verið að setja umtalsvert tekjuhærri einstaklinga á vinnumarkaði í forgang umfram þá allra tekjulægstu í samfélaginu sem bent er skýrt á í umsögnum um málið af hálfu Reykjavíkurborgar og fleiri aðila að geti orðið út undan í þessari þróun? Hefði ekki verið ráð að taka sér aðeins betri tíma í að vinna þetta mál og tryggja þá með viðbótarfjárveitingu af hálfu ríkisstjórnarinnar að í það minnsta þessi tekjulægsti hópur sæti ekki eftir í biðinni eftir húsnæði? Það hefði verið hægur leikur fyrir ríkisstjórnina að tryggja einfaldlega viðbótarfjármagn inn í þessi úrræði til að mæta allra tekjulægsta hópnum. Það hlýtur að vera óásættanlegt að tekjulægsti hópurinn í samfélaginu sé látinn sitja eftir vegna einhverrar skuldbindingar sem ríkisstjórnin hafi tekið á sig í kjarasamningum.