150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[13:11]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanni Helgu Völu Helgadóttur fyrir ræðuna. Hún fór yfir sjónarmið minni hlutans í sinni ræðu og svo sem ekkert sérstakt um það að segja. Hins vegar ræddi hún töluvert mikið um umsögn Félagsbústaða og um þær áhyggjur Félagsbústaða að þeir muni ekki geta sinnt hlutverki sínu á sama hátt og áður. Þarna tel ég að gæti nokkurs misskilnings vegna þess að með því að komið er á fót öðru úrræði fyrir hópinn sem er í tveimur lægstu tekjurfimmtungunum mun þrýstingur á sveitarfélögin um að útvega félagslegt húsnæði minnka og þar með ætti þörfin á þeim endanum ekki að vera sú sama. Þingmaðurinn hlýtur að vera mér sammála um að það sé ekki eðlilegt fyrirkomulag í samfélaginu að allir þeir sem eru í 40 neðstu tekjurprósentunum eigi að þurfa á því að halda að sækja um félagslegt húsnæði. Ég á mjög erfitt með að sjá fyrir mér að þingmaðurinn telji það og telji hún það leiðir af sjálfu að þá mun þrýstingurinn á Félagsbústaði minnka.

Hitt er svo aftur mjög áhugaverður punktur í umsögn minni hlutans að minni hlutinn, sem a.m.k. að einhverju leyti stendur saman af félagshyggjuflokkum og að einhverju leyti af hópum sem hingað til hafa talið sig vera talsmenn verkalýðshreyfinganna, skuli leggjast gegn því að frumvarpið verði samþykkt.