150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Byrjum á þeim athugasemdum sem komu fram áðan í andsvörum við flutningsmann meirihlutaálits. Ég hef engar efasemdir um að frumvarpið uppfylli ákvæði stjórnarskrár. Þetta uppfyllir það allt of mikið. Ég er að spyrja hvernig viðbótarsamkomulagið eða hvaða hluti af því uppfylli stjórnarskrárákvæðið. Hvernig uppfyllir viðbótarsamningurinn stjórnarskrárákvæðið? Það er það sem ég spyr um, mjög einfalt. Við erum með upphæð í þessu viðbótarsamkomulagi sem er ekki sundurliðuð eftir þeim skyldum sem hið opinbera, ríkið, hefur gagnvart stjórnarskrárákvæðinu um að styðja og vernda kirkjuna. Við erum ekki með hana sundurliða gagnvart þeirri þjónustu sem við ætlumst til að fá fyrir þann pening sem við leggjum í þetta samkomulag. Við verðum að hafa þá sundurliðun af því að hluti af lögum um opinber fjármál og þeim samningum sem ríkið gerir er að það sé eftirlit með gæðum þeirrar þjónustu sem við fáum. Það er ekki hægt sleppa því eftir hentugleika. Að lokum er það eignatilfærslan sem kirkjujarðasamkomulagið gengur út á til að byrja með, að það sé fullnaðaruppgjör á tilfærslu þeirra eigna. Við vitum alveg miðað við svör við fyrispurnum þingmanna að þær eignir sem lágu undir í því samkomulagi komu fram í áliti kirkjueignanefndar árið 1992 og þar er 350 blaðsíðna listi af eignum sem menn skipta á milli ábúenda, kirkju og sameignar í jörð, hlunnindi og hús. Það er summað allt saman eftir fasteignamati upp á eign kirkjunnar, 1 milljarð kr. Það er hægt að reikna þá upphæð nánar, rétt 72 milljónum meira en 1 milljarður kr., væntanlega á verðlagi ársins 1992. Á uppfærðu verðlagi með vísitölu neysluverðs erum við að tala um rétt rúma 3 milljarða árið 2018 sem liggja undir í þessari eignatilfærslu ríkisins.

Síðan hefur verið hnoðað eitthvað með þetta og ráðuneytin neita að svara því hvaða eignir liggja þar undir. Kannski af því að það er svo neyðarlegt að segja að verið sé að borga óendanlega háa upphæð, það var komið upp í 42 milljarða árið 2018, fyrir þessa 3 milljarða kr. eign. Það er vissulega svo að jarðir hafa verið að seljast á hærra verði en fasteignamat segir til um en það er heldur ekki hægt að svara því hver munurinn er á fasteignamati og söluverði almennt séð á undanförnum árum. Það ætti auðveldlega að vera hægt að sjá það í þinglýsingum, hvert fasteignaverðið var fyrir og eftir, en við fáum heldur engin svör við því. Sá munur verður aldrei tífaldur, ég býst alla vega ekki við því.

Í viðbótarsamkomulaginu er, eins og hefur komið fram í umræðunni, verið er að taka burt það ákvæði úr kirkjujarðasamkomulaginu sem fjölgar eða fækkar launuðum prestum. Þeir voru 138 og eru komnir í 136 samkvæmt þeim breytingum sem hafa orðið á fjölda skráninga í þjóðkirkjuna. Þetta er greinilega alls ekki sniðugt því að það er verið að fjarlægja ákvæðið á þeim tímum þar sem skráningum í kirkjuna fækkar og fækkar og nýskráningar eru núna komnir undir 50%. Það mun alveg tvímælalaust fækka enn þá meira í þjóðkirkjunni á næstum árum og þar af leiðandi felur þessi viðbótarsamningur sem er gerður núna ekki, eins og það er orðað hérna, í sér nýjar skuldbindingar af hálfu ríkisins. En miðað við það felur þessi samningur án efa í sér meiri skuldbindingar af því að 90% af þeirri upphæð sem er sett fram í þessum samningi eru uppfærð með launavísitölu, ekki fjölgun eða fækkun. Prestum fækkar ekkert þar og það er ekki endurskoðað næstu 15 árin. Ef við skoðum lög um opinber fjármál getur það einfaldlega ekki staðist því að þar er skýrt kveðið á um að hámarki fimm ára samningslengd. Það er hægt að veita undanþágu frá því, það er hægt að hafa samning bundinn lengur ef um meiri háttar fjárfestingar eða eitthvað slíkt er að ræða, en það er ekki einu sinni gerð tilraun til þess að útskýra það eða rökstyðja að 15 ár séu nauðsynleg og falli undir þá undanþágu. Ég gæti skilið það ef það þyrfti 15 ár í viðbót til að gera upp þessa eignatilfærslu, þá væri þetta fínt, en það er ekki einu sinni reynt.

Að mínu mati hlýtur þetta því að vera ólöglegt samningsákvæði og þar af leiðandi ekki gilt yfirleitt og hægt að taka það upp á hverju ári, af því að fjárlög eru samþykkt á hverju ári. Það er nú einu sinni Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið og þegar allt kemur til alls er það Alþingis að ákveða hvort þessi samningur verði fjármagnaður eða ekki. Hann er ekki með gildistíma að eilífu, það er ekki hægt samkvæmt lögum um opinber fjármál. Hann er ekki með endurskoðunarákvæði upp á 15 ár, það virkar ekki samkvæmt þeirri forskrift sem lög um opinber fjármál gera ráð fyrir. Þess vegna hlýtur samningurinn einungis að gilda frá ári til árs, eftir því sem Alþingi samþykkir. Þegar Alþingi segir nei fellur hann einfaldlega um sjálfan sig. Ef kirkjan telur sig hlunnfarna í þeirri eignatilfærslu eða eitthvað því um líkt sem þar liggur á bak við verður kirkjan einfaldlega að sækja það fyrir dómi. Þá verðum við að leggja öll gögn málsins þar fyrir og endum í endanlegri upphæð, ekki óendanlegri upphæð eins og við búum við núna.

Hérna hefur verið talað um að það sé í rauninni ekki í gangi aðskilnaður ríkis og kirkju. Það vantar svo mikið upp á. Öll viðbótarákvæðin í þessum samningi og allt það sem á eftir að gera til að byrja með dugar ekki til að klára aðskilnaðinn því að þar vantar einmitt fjárhagslega aðskilnaðinn, sem þetta er tvímælalaust ekki hluti af. Hins vegar er ákvæði í stjórnarskránni um að vernda og styðja kirkjuna og einhvern veginn þarf að uppfylla það ákvæði. Kannski þarf ekki að uppfylla það með fjárhagslegum skuldbindingum, hver veit. Ég stakk upp á því í breytingartillögum við fjárlögin að stuðningur hins opinbera fæli í sér að greiða fyrir uppihald á biskupsstofu. Að öðru leyti gætu sóknargjöldin bara séð um þetta eins og hjá öllum öðrum söfnuðum og lífsskoðunarfélögum á landinu. Öll önnur lífsskoðunarfélög nota sóknargjöldin til að standa undir launagreiðslum (Gripið fram í: Eða félagsgjöld. ) — Eða félagsgjöld til viðbótar eða annars konar fjáröflun. En að grunni til eru það sóknargjöldin. Þau sóknargjöld eru ekki uppfærð samkvæmt launavísitölu en samningur við þjóðkirkjuna er bundinn með launavísitölu og til viðbótar við það fær þjóðkirkjan síðan sóknargjöldin, ofan á allt þetta. Í því liggur munurinn sem er verið að reyna að vekja athygli á. Jú, kannski er á bak við þennan samning einhver uppgreiðsla á eignum en við fáum ekki svör við því hvaða eignir það eru, hvaða upphæðir eru þar á bak við. Og sá listi sem hefur verið vísað í að sé andlag þessa samnings, þær upphæðir sem við erum að glíma við í samningnum til frambúðar, passa ómögulega við upphæðir og verðgildi þeirra eigna sem þarna eru undir.

Það hefur komið fram dálítið áhugaverð ábending. Í endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar við ríkisreikning 2018 bendir Ríkisendurskoðun á að verið sé að klára ákveðna innleiðingu laga um opinber fjármál varðandi stofnefnahagsreikning þar sem eiga að koma fram allar eignir ríkisins og þær skuldbindingar sem eru á þeim eignum. Þetta á að klára á þessu ári. Það þýðir að allar þær eignir sem eru undir í lista kirkjueignaefndar sjást í stofnefnahagsreikningnum og það á að sjást hvaða skuldbinding liggur á bak við hverja eign fyrir sig. En það er ekkert svo rosalega líklegt að það takist, myndi ég halda. Það merkilega við þetta er að þjóðkirkjan hefur einnig beðið um þetta uppgjör, hún bað um það í maí 2018. Hún bað um upplýsingar um stöðuna á uppgjörinu á þessum eignum. Þjóðkirkjan sjálf vill fá að vita hvað hún á eftir að fá í greiðslu fyrir eignatilfærsluna en samt eru engin svör.

Þetta er gríðarlega stórt mál þegar við skoðum hversu margir milljarðar eru þarna undir. Það hlýtur því að vera forgangsatriði hjá þinginu að fá upplýsingar um þessar tölur áður en við förum út í einhverjar meiri háttar breytingar á fyrirkomulaginu eins og það liggur fyrir hérna. Þá tala ég sérstaklega um tilraunin til að setja á 15 ára gildistíma. Af öllu sem er hérna er það hinn 15 ára gildistími fyrir endurskoðunarákvæðið sem er mesta ruglið. Hin atriðin eru hænuskref í rétta átt, ég skal alveg taka undir það. En að vita ekki hvernig skiptingin er á milli uppfyllingar á ákvæði stjórnarskrár, þjónustukaupa og eignauppgjörs er algerlega ótækt fyrir þingið. Það eru ómöguleg vinnubrögð fyrir þingið að mínu mati. En eins og í mörgum öðrum málum sleppir meiri hluti þingsins því að skoða málið af því að það kemur frá framkvæmdarvaldinu, frá ráðherrum þeirra. Málinu er tekið þegjandi og hljóðalaust og dælt hérna í gegn og meira að segja, eins og kom fram í máli 2. minni hluta, án umsagna og þinglegrar meðferðar. Þetta er sérstaklega algengt rétt fyrir þinghlé eða þinglok og er eitthvað sem við verðum að fara að laga. Einungis einn hluti þingsins getur lagað þetta og það er meiri hlutinn. Það er meiri hlutinn sem skóflar málinu í gegn. Þetta er algjörlega á ábyrgð meiri hlutans og verði honum að því.