150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga.

17. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir andsvarið. Þingmaðurinn nefndi skatta, skattleysismörk og persónuafslátt og hvernig þau viðmið og mörk hefðu breyst á undangengnum árum. Ég er alveg sammála þingmanninum í því að þar hefur orðið breyting í þá átt að við erum núna, eins og kerfið er í dag, að taka hærri skatta af lægstu launum en við ættum að gera. Einmitt þess vegna erum við núna að breyta skattkerfinu aftur í þriggja þrepa skattkerfi til að reyna að svara þeim sjónarmiðum að einhverju leyti.

Við getum verið alveg sammála um að ekki er hægt að gera allt í einu. Það er ekki hægt að taka öll skrefin til fulls á hverjum tíma. Þetta er samt eitt mjög mikilvægt skref, vil ég meina, og ég held að hv. þingmaður sé mér sammála um að þarna innan um séu hópar sem þurfi að líta sérstaklega til og þá með almennum aðgerðum. Það sem lagt er til í tillögunni er ekki almenn aðgerð. Ég ítreka það sem ég sagði í andsvari við hv. þm. Ingu Sæland áðan, einar reglur um skatta og skattleysismörk verða að gilda fyrir alla þjóðfélagshópa og þess vegna er ekki hægt að taka þessa hópa út fyrir sviga eins og hér er lagt til.