150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

129. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd og ég ætla að leyfa mér, í ljósi þess að þetta er stutt nefndarálit, að lesa það. Þetta er nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Þetta mál hefur hlotið nafnið hækkun starfslokaaldurs.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Andra Val Ívarsson frá Bandalagi háskólamanna og Hrannar Má Gunnarsson frá BSRB. Nefndinni bárust umsagnir frá Bandalagi háskólamanna og BSRB. Með frumvarpinu er lagt til að hækka lögbundið hámark starfslokaaldurs starfsmanna ríkisins úr 70 árum í 73 ár. Sambærileg mál hafa komið fram nokkrum sinnum á undanförnum árum, samanber 37. mál á 149. löggjafarþingi.

Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru almennt hlynntir efni frumvarpsins og tóku undir að þörf væri á að taka lagaákvæði um starfslokaaldur til skoðunar, m.a. með hliðsjón af lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, og öðrum aldurstengdum réttindum. Þó komu fram athugasemdir um að samráð yrði að eiga sér stað, samanber meginreglu 52. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem hljóðar svo:

„Við samningu stjórnvaldsfyrirmæla samkvæmt lögum þessum, annarra en verklagsreglna, svo og við endurskoðun þeirra, skal jafnan gefa Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna og Alþýðusambandi Íslands kost á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um ágreiningsatriði þau sem upp kunna að koma.“

Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og telur nauðsynlegt að fram fari heildstæð endurskoðun á lögum og reglum um starfslokaaldur í samráði við framangreinda aðila auk fleiri aðila sem kunna að hafa hagsmuna að gæta í tengslum við málið, svo sem Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband eldri borgara. Við þá skoðun verði m.a. metið hvort tilefni sé til að ákvæði um hámarksaldur verði afnumin og önnur viðmið um hæfi einstaklinga innleidd í þeirra stað. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að samráð og önnur vinna við endurskoðun á framangreindum forsendum hefjist þegar í byrjun ársins 2020 og að ráðherra leggi fram lagafrumvarp með tillögum að breytingum á haustþingi.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Undir þetta nefndarálit skrifa ásamt mér hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ólafur Ísleifsson, Þorsteinn Víglundsson, Oddný G. Harðardóttir og Smári McCarthy.

Nefndin leggur sem sagt til að máli þessu verði vísað til ríkisstjórnar og unnið enn frekar. Allir nefndarmenn eru jákvæðir í garð þessa máls og telja mikilvægt að endurskoða ákvæði um starfslokaaldur, enda hefur ýmislegt breyst í lýðfræði okkar. Þess ber líka að geta að hér er með engu móti verið að fjalla um töku lífeyrisréttinda. Hún helst óbreytt. Ég hef kosið að líta á þetta sem ákveðið frelsismál, þ.e. frelsi og val einstaklinga til að vinna lengur þó að enn þá sé verið að tala um aldurinn 73 ára. Þess ber að geta í umræðum í nefndinni kom einmitt fram sú spurning hvort það væri ástæða til að taka aldursmörkin alveg út.

Mig langar líka að bæta við þetta, virðulegur forseti, að ég hef lengi verið á þeirri skoðun að endurskoða þurfi algerlega starfsmannalögin svokölluðu, eða lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég hefði reyndar viljað ganga svo langt að segja að það væri hægt að afnema þau lög, fyrir utan auðvitað kaflann er lýtur að embættismönnum þar sem er nauðsynlegt að hafa lagaákvæði um réttindi og skyldur þeirra á skipunartíma og annað þess háttar.

Að þessu sögðu hvetjum við ríkisstjórnina til dáða og í rauninni væntum þess að farið verði í endurskoðun á þessum lögum, sérstaklega hvað varðar aldursþættina. Mér finnst þykir samt, virðulegur forseti, full ástæða til þess, ekki síst í ljósi nýliðinna atburða og ýmissar umræðu um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, að taka jafnvel fleiri ákvæði þessara laga til endurskoðunar.