150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[19:58]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég skal verða fyrst til að segja að þegar lífskjarasamningar voru gerðir á sínum tíma var það fagnaðarefni og ég veit ekki betur en að við í stjórnarandstöðunni höfum einmitt fagnað því. Þetta snýst ekki um það. Það sem er að gerast núna er að þetta mál kemur því miður kemur allt of seint frá ráðuneytinu til okkar. Það fékk of stuttan tíma í samráðsferlinu og það eru umsagnir sem koma með mjög alvarlegar athugasemdir. Þeir sem við höfum áhyggjur af eru þeir aðilar sem tóku ekki þátt í þessum samningum, öryrkjar, námsmenn og ellilífeyrisþegar, þeir sem eru ekki á vinnumarkaði. Það lítur út fyrir að þessi lagabreyting muni bitna á þeim og þeirra kjörum. Það eru athugasemdirnar sem hafa komið, það eru umsagnirnar sem við erum búin að vera að lesa og það er ástæðan fyrir því að við gerum mjög alvarlegar athugasemdir við málið. Þetta er ekki hluti af neinu leikriti, þetta er bara sú staðreynd að ræðan sem hæstv. ráðherra hélt áðan (Forseti hringir.) sýnir gífurlegan skort á dómgreind, að hann sé tilbúinn að fara í svona stórar lagabreytingar, grundvallarlagabreytingu, án þess að skoða almennilega hvort þetta muni í raun og veru bitna á því fólki sem er viðkvæmasti hópurinn í samfélaginu.