150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

neytendalán.

223. mál
[20:14]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingar á neytendalánum. Það er ágætt að muna að í lögum er ekki til nein skilgreining á smálánum sérstaklega þannig að hér er verið að gera breytingu á lögum um neytendalán. Eins og fram hefur komið fögnuðu allir þeir sem sendu inn athugasemdir því að þetta frumvarp væri komið fram og yrði samþykkt en margir vildu ganga enn lengra. Nefndin tók í þessu tilfelli tillit til þeirra athugasemda sem fram komu og hér eru því nokkrar breytingartillögur. Þær ganga helst út á að nú er skráningarskylda á þeim fyrirtækjum sem veita slík lán og Neytendastofa hefur áfram eftirlit með því. Jafnframt er tekið á skráningarskyldu er varðar lög um peningaþvætti og svo er lækkuð árleg hlutfallstala kostnaðar þannig að hann fer úr 50% í 20%*, auk þess sem við gerum kröfu um auðkenningu.

Ég held að hér séum við með í höndunum mjög gott frumvarp og hvet þingheim til að samþykkja það eins og það liggur fyrir með breytingartillögum meiri hluta.

[*Sjá leiðréttingu í atkvæðaskýringu þingmannsins kl. 20:19.]