151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:07]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að kynna okkur þetta frumvarp. Það er síður en svo um að ræða byltingarkenndar breytingar og við því er ekki að búast úr þessum ranni. Við hefðum viljað sjá grundvallarbreytingar en það er ekki um það að ræða. Þessar breytingar í heild sinni skipta ekki höfuðmáli en þær skipta miklu máli fyrir hlutaðeigandi byggðarlög, fyrir ýmis svæði á landinu, og að því leyti til eru þetta jákvæðar breytingar að því er virðist í fljótu bragði. Mig langar aðeins að fjalla um þennan hluta, 5,3% af heildarkvóta auðlindar okkar landsmanna. Það er opnað fyrir nýjung í þessu sem er til komin vegna beiðni sveitarstjórna m.a., að sveitarfélögin geti nýtt hluta af þessum byggðakvóta sínum til ýmissa uppbyggingarstarfa því að mörg sveitarfélög standa á tímamótum og hafa kannski ekki verið að nýta þennan byggðakvóta eins og til var efnt. Nú eru þessi 5,3% kölluð ráðstafanir til að efla atvinnu og byggðir og það er gott og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið slegið á það í hve mörgum tilvikum menn gætu verið að nýta sér þetta. Ákvæði er um að þetta sé gert í tilraunaskyni en er ekki mikilvægt að festa þetta ákvæði til lengri tíma þannig að sveitarstjórnir geti gert sínar áætlanir og unnið að uppbyggingu í ljósi þess?