151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:15]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér að stíga stórt skref, ef ekki bara fara kollhnís, í þessu viðamikla máli. Eins og ráðherra kom inn á er hér um töluverða fjármuni að ræða, það eru allt að 5–7 milljarðar sem við erum að úthluta. Ég er sammála því að það þarf að vera mjög skýr afmörkun á því og skýr skilaboð sem við þurfum að senda út um það með hvaða hætti við ætlum að gera þetta. En þá er ég að spá í, af því við erum að tala um fyrirsjáanleika, að við erum að breyta þessu úr tonnum í hlutfall, er nógu mikill fyrirsjáanleiki í því? Það geta verið svo viðamiklar breytingar á hlutfallinu á milli ára. Ég ætla þá í fyrsta lagi að spyrja um þetta hlutfall, hvort ráðherra sjái fyrirsjáanleika í því. Í annan stað felur tillaga frumvarpsins í sér breytingu að því leyti að við erum að fara með þetta til lengri tíma, þ.e. sex ár í stað í þriggja. Það hefur verið talað um félagslega pottinn í aflaheimildum, útdeilingu á þeim. Getur orðið fyrirsjáanleiki í því til sex ára? Er ekki svolítið erfitt að binda þessar ákvarðanir í svona langan tíma ef við ætlum að horfa á fyrirsjáanleika fyrir þá sem þiggja þetta?

Ég ætlaði í seinna andsvari að koma að öðrum þætti en byrja á þessu.