152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

lífeyrisbætur og verðbólguhækkanir.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í tryggingakerfi almannatrygginga eins og það var byggt upp á sínum tíma varð til bótaflokkur sem hét grunnlífeyrir sem lengi vel var hinn eiginlegi ellilífeyrir, óskerðanlegur. Okkur fannst á sínum tíma vera mikil ósvinna þegar Jóhönnustjórnin tók upp á því að skerða grunnlífeyrinn. Það er hann sem ég var að tala um í tilvitnuðu bréfi og við gengum í það strax sem eitt fyrsta verk ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem kosinn var 2013 að afnema tekjutengingu grunnlífeyris. Það gerðum við. Við skiluðum því loforði í hús en við gerðum miklu meira en það. Við lækkuðum skerðingarprósenturnar. Við drógum úr hvers kyns skerðingum sem höfðu verið innleiddar í almannatryggingar á árunum 2009–2013 og svo gerðum við meira vegna þess að árið 2016 tóku við ný réttindi sem hafa sýnt sig að hafa aukið kaupmátt lífeyrisþega almannatrygginga umfram það sem gerðist varðandi kaupmáttarvöxt launþega.

Þetta er meginástæðan fyrir því að bætur almannatrygginga í ellilífeyriskerfinu hafa vaxið úr tæpum 40 milljörðum árið 2013 í um 90 milljarða í dag. Það er 50 milljarða aukning í útgreiðslur til lífeyrisþega. Við verjum í ellilífeyri almannatrygginga meira en 10% af öllum tekjum ríkisins, um 90 milljarða útgreiðslur. Þetta er ekki réttindakerfi. Þetta er bótakerfi sem er ætlað að styðja við þá sem ekki hafa náð að nýta starfsævina til að byggja upp lífeyrisréttindi sín. Skerðingarnar sem hv. þingmaður ræðir hér um, við skulum bara ræða það í fullri alvöru hvað það myndi kosta hinn almenna skattgreiðanda að afnema þær með öllu eins og látið er í skína. Ætli það myndi ekki kosta okkur vel rúmlega 100 milljarða á ári að taka allar skerðingarnar og afnema þær og breyta almannatryggingakerfinu í réttindakerfi sem það getur aldrei orðið. Er það virkilega pólitík (Forseti hringir.) Flokks fólksins að senda bætur til fólks algjörlega óháð (Forseti hringir.) innkomu og efnahag?