152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

lífeyrisbætur og verðbólguhækkanir.

[10:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra snýr út úr eins og hann er vanur. Hann talar eins og allir séu í sömu körfunni. Þeir verstu eru ekki í þessari körfu. Verst setta fólkið er ekki í þessari körfu. Það er ekki að fá neinn kaupmátt og hefur ekki fengið nein kaupmátt. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að sanna það. Hvernig getur einhver fengið kaupmátt þegar hann fær 4,6% hækkun í 6,2% verðbólgu? Hvernig stendur á því, ef við tökum það sem dæmi, að núna eru fasteignaskattar að fara upp úr öllu valdi? Meira að segja er kvartað undan því í Garðabæ að fasteignaskattar hafi hækkað um 8% umfram verðbólgu. Á hverjum bitnar það? Þeim verst settu. Og að snúa út úr hreinlega og segja að allir séu að hafa það svo ótrúlega gott er bara útúrsnúningur. Ég er að tala um þá verst settu. Þið segið alltaf að það séu svo fáir, að þeir séu svo fáir en af hverju gerið þið ekkert fyrir þá? Ef þeir eru svona fáir þá hlýtur það að kosta lítið.