152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

gjaldfrjálsar tannréttingar fyrir börn.

58. mál
[12:28]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar um gjaldfrjálsar tannréttingar fyrir börn sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að tannréttingar barna verði gjaldfrjálsar og felur heilbrigðisráðherra að leggja fram frumvarp þess efnis eigi síðar en í maí 2022.“

Frú forseti. Þessi tillaga var lögð fram á síðasta þingi af þáverandi þingmanni Samfylkingarinnar, Ágústi Ólafi Ágústssyni, en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram að nýju. Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að tannréttingar barna verði gjaldfrjálsar og að heilbrigðisráðherra verði falið að leggja fram frumvarp þess efnis eigi síðar en í maí 2022. Tannréttingar barna heyra undir heilbrigðismál barna og telja flutningsmenn óboðlegt að börnum sé mismunað eftir efnahag foreldra og leggja því til að tannréttingar barna verði gerðar gjaldfrjálsar eins og tannlækningar barna sem voru gerðar að fullu gjaldfrjálsar árið 2018. Kostnaður við tannréttingameðferð barns getur hæglega farið langt yfir 1 milljón króna og meðferðin tekur að meðaltali þrjú ár. Foreldrar bera kostnaðinn og við blasir að efnaminni foreldrar veigra sér við og geta alls ekki ráðist í að aðstoða börn sín þegar kemur að tannréttingum. Tann- og bitskekkjur erfast gjarnan innan fjölskyldna og því getur töluverður kostnaður lagst á fjölskyldur þegar fleiri en einn fjölskyldumeðlimur þarf á tannréttingum að halda.

Þessi staða, frú forseti, er ólíðandi og því er mikilvægt að Alþingi gefi út viljayfirlýsingu um að börnum verði ekki lengur mismunað þegar kemur að tannréttingum.

Samningur Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna tók gildi 15. maí 2013 með undirritun Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra. Samningurinn var innleiddur í áföngum þar sem markmiðið var að tannlækningar fyrir börn 17 ára og yngri yrðu þeim að kostnaðarlausu að undanskildu árlegu komugjaldi. Til að byrja með tók samningurinn til barna 15, 16 og 17 ára og svo bættust fleiri árgangar við samkvæmt tímasettri áætlun þar til hann náði til allra barna hér á landi þegar innleiðingunni lauk að fullu 1. janúar 2018. Samkvæmt samningnum greiða Sjúkratryggingar Íslands núna að fullu fyrir tannlækningar barna 17 ára og yngri, fyrir utan 2.500 kr. árlegt komugjald. Já, frú forseti. Það skiptir nefnilega máli hver stjórnar, þetta gerðist í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Árið 2021 var gert ráð fyrir að kostnaður við að setja tannréttingar barna líka inn í Sjúkratryggingar yrði um 2,6 milljarðar á ári. Um 30% af hverjum árgangi nýta sér nú þjónustu tannréttingalækna. Áætla má að kostnaður við gjaldfrjálsrar tannréttingar barna geti numið 1,5 milljörðum, sem er langtum minna en kostnaðurinn við tannlækningar barna.

Markmið samningsins um tannlækningar barna er að börn yngri en 18 ára fái nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Að mati flutningsmanna á slíkt markmið einnig við þegar kemur að tannréttingum barna af því að núverandi kerfi mismunar börnum eftir efnahag foreldra, enda geta tannréttingar fyrir börn verið mjög kostnaðarsamar og dæmi eru um að meðferðir hafi kostað á aðra milljón króna. Því er það ítrekað að efnaminni foreldrar á Íslandi hafa augljóslega ekki sömu möguleika og þeir sem meira hafa á milli handanna til að tryggja börnum sínum nauðsynlegar tannréttingar. Að mati bæði núverandi og þáverandi formanns Tannréttingafélags Íslands er nokkuð algengt að foreldrar sjái sér ekki fært að láta rétta tennur barna sinna vegna mikils kostnaðar. Það er því alveg ljóst að félitlar fjölskyldur hafa ekki efni á að senda börn sín í tannréttingar, hvað þá ef mörg börn innan sömu fjölskyldu þurfa á tannréttingum að halda. Í þeim tilfellum þar sem nauðsynlegt þykir að barn undirgangist tannréttingameðferð er langoftast um að ræða bit- eða tannskekkju sem er meðfæddur galli og því ekki hægt að koma í veg fyrir. Benda má á að hið opinbera greiðir að fullu fyrir aðgerðir til að bæta úr meðfæddum göllum hjá börnum annars staðar í líkamanum en ekki þegar um er að ræða tennur. Það er undarlegt, frú forseti, að tennur séu undanskildar þátttöku Sjúkratrygginga þegar kemur að tannréttingum.

Fram til ársins 1992 var í gildi samningur milli tannréttingasérfræðinga og Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslu á tannréttingum. Samningurinn náði til flestra tryggðra sjúklinga með bit- og tannskekkjur og var verulegur hluti af tannréttingakostnaði endurgreiddur. Í byrjun árs 1992 voru hins vegar sett lög sem bundu enda á allar endurgreiðslur vegna venjulegra tannréttinga. Þetta var því miður gert þarna og þýddi að þeir sjúklingar sem þurftu á tannréttingum að halda fengu ekkert endurgreitt. Í dag er það svo að Sjúkratryggingar Íslands greiða hluta kostnaðar vegna nauðsynlegra tannréttinga samkvæmt ákvæðum IV. og V. kafla reglugerðar 451 frá 2013 og er þar skilyrði að tannréttingasérfræðingur veiti þjónustuna vegna tannréttingameðferðar með föstum spöngum og hefur styrkupphæðin, sem er 100.000 kr. eða 150.000 kr., ekki breyst neitt í þessi 20 ár, ekki neitt. Fjárhæðin er sú sama og hefur ekki einu sinni haldið í við verðlagsþróun. Hefði styrkurinn verið vísitölutengdur og fylgt eðlilegu verðlagi væri hann nú 340.000 kr. að lágmarki.

Flutningsmenn telja ljóst að þessir styrkir dugi oft skammt og í mörgum tilfellum alls ekki, enda er algengur kostnaður við tannréttingar á aðra milljón króna eins og áður hefur komið fram. Skilyrði fyrir því að fá slíkan styrk frá Sjúkratryggingum er að meðferð með föstum tækjum hefjist fyrir 21 árs aldur og að viðkomandi hafi ekki áður fengið styrk vegna tannréttinga.

Sjúkratryggingar Íslands hafa greitt um 220 milljónir í slíka styrki til um 1.840 barna. Ef um alvarlegri tilvik er að ræða greiða Sjúkratryggingar Íslands 95% af þeim kostnaði sem hlýst af meðferð hjá tannréttingasérfræðingi og á þetta við um þau tilvik þegar um er að ræða klofinn góm, meðfædda vöntun á a.m.k. fjórum fullorðinstönnum eða í ákveðnum tilvikum þegar skurðaðgerð þarf til leiðréttingar á biti. Ekki er samningur um slíka þjónustu heldur er greitt eftir gjaldskrá viðkomandi sérfræðings og veit sú sem hér stendur að oft þurfa foreldrar og aðrir fjölskyldumeðlimir barna sem lenda í slysi eða eru með slíka meðfædda galla að standa í margra ára stappi við Sjúkratryggingar Íslands til að fá afgreiddan þó þennan stuðning sem er svona mikið sértækur. Sjúkratryggingar Íslands hafa árlega niðurgreitt 420 meðferðir vegna svona alvarlegra tilfella hjá börnum fyrir um tæplega 200 millj. kr. á ári, þannig að þetta eru ekki háar fjárhæðir, frú forseti. Enn fremur eru styrkir veittir fyrir tveimur ferðum vegna tannréttinga á ári. Skilyrði er að viðkomandi njóti styrks vegna tannréttinga og þá er hægt að fá stuðning fyrir þá sem búa utan helstu þéttbýliskjarna, utan nálægðar við tannréttingasérfræðinga.

Hér er lagt til að auk nauðsynlegra tannréttinga sem gerðar eru af læknisfræðilegum ástæðum verði aðrar tannréttingar sem tannlæknir metur að bæti lífsgæði barns einnig gerðar gjaldfrjálsar. Þó skal tekið fram að ekki er gert ráð fyrir að allar hugsanlegar tannréttingar barna verði gjaldfrjálsar, svo sem þær sem út frá læknisfræðilegu sjónarmiði teljast minni háttar. Að því sögðu leggja flutningsmenn áherslu á að hið opinbera setji ekki of ströng skilyrði fyrir greiðsluþátttöku því að oft geta tannréttingar einmitt bætt sjálfsmynd og þannig heilsu, geðheilsu barns, með ýmsum hætti. Flutningsmenn leggja því til að tannréttingasérfræðingar og tannlæknar, í samráði við heilbrigðisráðuneytið, komi sér saman um þau skilyrði sem eiga að gilda, um hvaða tilvik skuli vera gjaldfrjáls og hver ekki. Við samningu frumvarpsins er lögð áhersla á að heilbrigðisráðuneytið hafi samráð við tannlækna og tannréttingasérfræðinga og skal samráð aldrei of oft ítrekað og áréttað hér í þingsal. Því miður mættu ráðherrar, þar á meðal hæstv. heilbrigðisráðherra, taka þetta sterkt til sín. Flutningsmenn leggja áherslu á að gjaldfrelsið taki gildi sem fyrst og eðlilegt markmið væri næsta fjárlagaár. Því er lagt til að heilbrigðisráðherra leggi fram frumvarp eigi síðar en í maí næstkomandi, maí 2022.

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu er fjallað aðeins um hvernig þetta er á Norðurlöndunum og þar má sjá, m.a. í Noregi og víðar, að sérstakt tillit er tekið til barnmargra fjölskyldna þar sem fleiri en eitt barn þurfa á tannréttingakostnaði að halda og telja flutningsmenn að það sé mjög til fyrirmyndar og eftirbreytni að hafa það í huga. Þegar tannréttingakostnaður hleypur á milljónum skiptir mjög miklu máli að okkar sameiginlega sjúkratryggingakerfi komi þar til aðstoðar.

Eins og áður sagði er það þingflokkur Samfylkingar sem stendur fyrir þessari þingsályktunartillögu. Óskum við að þessari umræðu lokinni eftir því að málið verði sent hv. velferðarnefnd.