152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala .

76. mál
[14:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fasteignalán neytenda og nauðungarsölu. Flutningsmaður er hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir og allur þingflokkur Flokks fólksins stendur heils hugar á bak við frumvarpið. Fasteignalán og fasteignaviðskipti — það verður bara að segjast alveg eins og er að það er óskiljanlegt að við skulum ekki vera búin að koma hlutunum í lag á öllum þeim tíma sem liðinn er frá hruni. Að það hafi ekki verið lært af bankahruninu og strax tekið á því ótrúlega óréttlæti sem þar kom fram er okkur til háborinnar skammar, eða réttara sagt ríkisstjórnum sem hafa verið við völd síðan þá til háborinnar skammar. Það er líka þeirri ríkisstjórn sem var við völd þegar bankahrunið átti sér stað til háborinnar skammar hvernig hún sótti að almenningi, hvernig þúsundir eigna voru teknar eignarnámi. Eftirstöðvar þess eru skelfilegar. Þess vegna styður Flokkur fólksins heils hugar þetta frumvarp um að ef fólk lendir í álíka hremmingum og fólk gerði í bankahruninu geti það skilað inn lyklunum, eins og margar siðaðar þjóðir leyfa, og þar með sé skuld fólks í viðkomandi eign lokið.

Svona var þetta ekki í hruninu. Þar var ótrúlegur meðulum beitt til að reyna að klekkja á þeim sem höfðu misst húsnæðið ofan af sér. Fólk hrökklaðist úr eigin húsnæði þar sem það var kannski að borga 100.000 kr. af fasteignaláni á mánuði og lenti á leigumarkaði þar sem það þurfti að borga tvöfalt meira. Þótt bankinn væri búinn að hirða eignina hvarflaði ekki að honum í eina sekúndu að láta viðkomandi í friði heldur var byrjað að setja inn kröfur og elta viðkomandi langt út yfir dauða og gröf ef á þurfti að halda. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni Ásthildi Lóu Þórsdóttur var verið að selja þessar eignir á uppboði þar sem þær seldust langt undir markaðsvirði. En það voru engar athugasemdir gerðar við það og þar af leiðandi var upphæðin sem bankinn eða viðkomandi fékk eignina á kannski bara þeirra veðréttur, það voru fleiri skuldir á viðkomandi eign og sú skuld elti síðan viðkomandi fyrir dómstóla og gerði hann gjaldþrota. Þetta var óskiljanlegt vegna þess, eins og hefur komið fram, að oft voru þessar eignir seldar undir markaðsvirði sem hefði annars staðið undir öllum skuldum viðkomandi eignar. En það var enginn að spá í að reyna að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að þarna yrði jafnað á milli þannig að viðkomandi þyrfti ekki að vera í skuldafangelsi það sem eftir væri ævinnar. En það var staðreyndin og staðreyndin er sú að mörg okkar sem misstum eignir okkar á þessum tíma stóðum í ótrúlegri baráttu við að reyna að bjarga okkur. Margir fóru til umboðsmanns skuldara og reyndu að bjarga sér þannig. Þar voru mjög strangar reglur og síðan þurfti að eiga við ótrúlega illgjarna lögfræðinga sem voru bara siðblindir, myndi ég segja. Þeim var skítsama hvort hlutirnir væru löglegir eða ólöglegir, þeir skyldu ná sínu fram hvernig sem þeir færu að því. Við höfum séð margt ljótt í þessu samhengi. Eitt það ljóta sem við höfum séð í þessum málum eru smálánin, sem eru ömurlegur hluti af kerfinu og þar hefur verið farið gífurlega illa með fólk.

Það er staðreynd að uppgjöri vegna bankahrunsins er ekki lokið og verður ekki lokið að ég tel fyrr en þessari ríkisstjórn verður komið frá og ríkisstjórn kemst til valda sem virkilega hugsar um fólkið fyrst og svo allt hitt. Ekki að fjármálin séu tekin fyrst og svo megi fólk bara éta það sem úti frýs, eins og ríkisstjórnir undanfarinna áratuga hafa gert. Ég veit að það eru litlar líkur á að þetta frumvarp sleppi í gegn hjá þessari ríkisstjórn en ég veit að almenningur styður það. Ég vona heitt og innilega að það verði ekki langt í það að réttlætið nái fram að ganga á Alþingi.