Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[12:18]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Eins og aðrir þingmenn styð ég þetta mál að sjálfsögðu heils hugar og fagna því að það sé komið fram. Ég fagna því sömuleiðis að tillaga okkar í stjórnarandstöðunni um að setja þetta mál á oddinn hér á dagskránni hafi verið samþykkt þannig að við getum klárað þetta sem allra fyrst, enda einhugur um það í þinginu.

Það sem mig langaði að minnast á, og ætla ég ekki að fara í málalengingar um þetta, er hversu vont það er að allt sem við gerum í þessum málaflokkum, allar sporslur og annað sem við erum að afgreiða til öryrkja og annarra, sé afurð þess kerfis sem við höfum byggt upp og byggir að mínu mati á algjörlega kolrangri hugmyndafræði. Við sjáum þetta í öllu kerfinu, öllu bótakerfinu og almannatryggingakerfinu og við sjáum þetta þegar kemur að öðrum málaflokkum þar sem um er að ræða einstaklinga sem á einhvern hátt standa höllum fæti gagnvart meðaltalinu, og þar á ég við málefni sjúklinga almennt og málefni fanga, útlendinga og annarra.

Í umræðunni í dag hefur verið kallað eftir róttækari breytingum til að tryggja að allt fólk í samfélaginu geti lifað mannsæmandi lífi án þess að þurfa sífellt að vera með betlistafinn á lofti, líkt og hv. þm. Inga Sæland orðaði það réttilega. Jafnvel þegar þingmenn meiri hlutans koma hingað og lýsa því yfir að heildarendurskoðun sé hafin, þá erum við í rauninni ekki að tala um neina grundvallarendurskoðun á því kerfi sem við höfum byggt upp. Jafnvel sú heildarendurskoðun sem þar er vísað til er bútasaumsendurskoðun. Meira að segja hefur reglulega verið sagt berum orðum að sú endurskoðun þurfi að fara fram reglulega og snýst hún akkúrat um að eiga við þessar sporslur sem eru hér og þar í kerfinu. Áfram gerir kerfið ráð fyrir því og byggist á þeirri hugmyndafræði að það sé í lagi og eðlilegt, óhjákvæmilegt fyrirkomulag, að þau sem minna mega sín í samfélaginu séu sífellt á hnjánum að biðja um það sem ég held að við séum öll sammála um að megi kalla grundvallarréttindi.

Þetta hryggir mig alltaf í þessari umræðu. Við erum alltaf að rífast um krónur og aura fram og til baka á meðan þessi umræða um grundvallarhugmyndafræðina á bak við allt þetta kerfi, hvernig við ætlum að byggja upp samfélag þar sem öll njóta sömu tækifæra, fer aldrei almennilega fram. Því langar mig bara að koma hingað upp og kalla eftir þeirri umræðu. Enn og aftur þá fagna ég þessu frumvarpi, en við skulum samt viðurkenna hversu lítilsvert þetta er; einhvers konar framlag sem við hendum fram á síðustu stundu til að fólk þurfi ekki að hafa alveg jafnstóran kvíðahnút í maganum um jólin. En það er alveg ljóst að fullt af fólki verður áfram með þann kvíðahnút og þetta er í raun bara dropi í hafið til að leysa þann vanda sem margir standa frammi fyrir. Þetta er þó eitthvað þannig að ég samþykki þetta að sjálfsögðu. En ég vildi koma þessu á framfæri og hvetja alla mína kollega til að taka þátt og styðja mig í að koma umræðu í gang um það hvers konar samfélag við viljum byggja hér upp.