154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:34]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vildi koma hér upp í aðdraganda þessarar atkvæðagreiðslu og byrja á því að þakka fyrir þær umræður sem hér hafa verið um frumvarpið síðustu daga og voru afskaplega áhugaverðar. Það frumvarp sem við erum að leggja hér fram er aðhaldssamt. Það var það sem var farið af stað með hér í upphafi í fjárlagafrumvarpinu og í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir er þeirri línu haldið áfram. Þær viðbætur sem hafa komið á milli umræðna eru með því minnsta sem við höfum séð í mjög langan tíma þrátt fyrir að við séum að bæta í lögreglu, landhelgisgæslu og heilbrigðismálin, við erum að bæta inn í menntaskólana og standa vörð um velferðina. Þannig að ég segi: Hér erum við með fjárlagafrumvarp sem talar akkúrat inn í það sem meiri hlutinn hefur talað um hér síðustu misseri; að koma fram með fjárlagafrumvarp sem mun hjálpa Seðlabankanum að ná niður vöxtum og verðbólgu í þessu landi og ég er sannfærður um að við munum ná því með þessu frumvarpi.