154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:31]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Það sem við erum að ræða hér, eins og fram hefur komið, er að taka af sérstaka aðhaldskröfu á lögregluna. Þetta var gert í fjárlögum í fyrra og ég veit að þetta reyndist löggæslunni á Íslandi gríðarlega vel. Það munaði um þetta fjármagn fyrir lögregluna. Það var sérstakt aðhald núna í þessu fjárlagafrumvarpi sem við erum að taka af, einmitt með sömu markmiðum og í fyrra. En hins vegar er það alveg ljóst að í fjármálaáætlun þurfum við að skoða rekstrargrunn þessarar stofnunar eins og margra annarra. Eins erum við að taka af aðhald á Landhelgisgæsluna, bæði sérstakt og almennt, sem mun veita Landhelgisgæslunni u.þ.b. 240 millj. kr. í aukið rekstrarfé á næsta ári sem svo sannarlega mun muna um og eins eru tillögur varðandi Landhelgisgæsluna í fjárauka sem við munum ræða síðar. Ég segi já.