132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Horfur í loðnuveiðum.

[10:50]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér heyrist allir vera sammála um að auðvitað á að fara að þessum málum með mikilli gát, það gefur augaleið, ekki síst í því óvissuástandi sem núna er. Hins vegar hljóta menn líka að vera sammála um að við verðum að herða okkur við leitina, við verðum að reyna að aflétta þessu óvissuástandi og það hafa menn verið að reyna að gera. Staðið hefur yfir skipuleg leit í samvinnu Hafrannsóknastofnunar og útgerðanna og ekki fyrir löngu síðan fór heill floti skipa bæði vestan að og austan að og norður um land til að leita að loðnunni eftir skipulegum ferlum sem ákveðnir voru í upphafi leitarinnar. Að mínu mati hefur verið vel að þessu staðið. Gefinn var út sérstakur leitarkvóti til að standa undir þessu og það er úr þeim kvóta sem menn eru að veiða. (Gripið fram í.)

Það er ekki þannig, virðulegi forseti, að við séum að tala um að ganga nærri stofninum með þeirri leit sem við stöndum fyrir, auðvitað er það ekki svo, menn fara af mikilli gætni. Ég var að útskýra það og greina frá því áðan að okkar stóra hafrannsóknaskip, Árni Friðriksson, er á leiðinni á miðin núna til þess að reyna að mæla þetta enn þá frekar. Skipinu hefur verið vel haldið úti frá því í haust til að stunda þessa leit og þessar rannsóknir ásamt reyndar öðrum rannsóknum. Skipið og fulltrúar Hafrannsóknastofnunar eru að sjálfsögðu í sambandi við skipstjórnarmenn á loðnubátunum til að fylgjast með og koma á miðin þegar menn telja tilefni til þess ef aðstæður hafa breyst. Þannig er það núna að menn eru að fara út til að reyna að mæla þetta.

Einnig var spurt um afstöðu mína gagnvart flottrollinu. Ég hef ítrekað rætt þessi mál bæði á opinberum vettvangi, utan þingsins og innan þingsins, og menn vita alveg að ég hef mínar efasemdir um það hvernig staðið hefur verið að flottrollsveiðunum. Forstjóri Hafrannsóknastofnunar lagði fram tilteknar tillögur um það hvernig standa ætti að þessu á aðalfundi LÍÚ í haust og fékk svo sem ágætisviðtökur við þeim. Það er hins vegar ekkert tilefni til þess að setja fram reglugerð eða breytingar á þessum málum núna meðan ekki liggur fyrir hvort nokkur loðnuveiði verði yfir höfuð á þessari vertíð. Það er auðvitað ekki tilefni til þess að fara að banna einhverjar veiðar þegar við vitum ekki einu sinni hvort þær muni eiga sér stað. Við erum einfaldlega í þessari stöðu núna. Það er kostað kapps um að reyna að leita (Forseti hringir.) að loðnunni vegna þess að það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt að hún er mikilvægur fiskstofn og það er eðlilega að þessum málum staðið að öllu leyti.