133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Sundabraut -- ástandið í Palestínu.

[09:31]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins vegna nýrrar skýrslu um Sundabraut og Sundagöng og vil nota tækifærið og lýsa yfir ánægju minni með það hvernig þau mál eru að þróast. Það er ekki í fyrsta skipti sem ég ræði þessi mál hér á þessum vettvangi. Ég var t.d. upphafsmaður að utandagskrárumræðu um tengingu Sundabrautar við Grafarvog í febrúar á þessu ári þar sem samgönguráðherra opnaði á breyttar vegtengingar við Grafarvog við lítinn fögnuð sumra þingmanna Samfylkingarinnar sem fannst fráleitt að ræða þetta út frá þeim forsendum að hér væri um að ræða tengingu við einhvern botnlanga í Reykjavík, eins og það var orðað.

Sem betur fer hlustaði samgönguráðherra ekki á neinar slíkar úrtölur. Þetta mál hefur verið sett í þann farveg að starfandi hefur verið vinnuhópur með Reykjavíkurborg, íbúasamtökum Grafarvogs og Laugardals, Faxaflóahöfnum og Vegagerðinni og hér liggja fyrir, ef ég skil málið rétt, tveir valkostir, að vísu ekki réttur valkostur miðað við hvað var á netinu sem snýr að leið 3. Síðan er búið að opna á, sem mér líst mjög vel á og vonast til að góð sátt geti orðið um, jarðgangaleið sem hefur verið samþykkt að setja í umhverfismat.

Ég lýsi yfir ánægju minni með það hvernig þetta mikilvæga mál er að þróast, er ánægður með þátt Reykjavíkurborgar, íbúasamtakanna og ráðherra í því máli. Öllum ætti að vera ljóst hve mikilvægt hagsmunamál þetta er fyrir alla landsmenn, ekki bara Reykvíkinga, að við klárum Sundabraut eða Sundagöng, og ef góð sátt næst um hvaða leið verður farin er til mikils unnið. Ég hvet því bara aðila til að halda áfram þessu mikilvæga verkefni.