133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Sundabraut -- ástandið í Palestínu.

[09:35]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil ræða hér um allt annað málefni undir liðnum um störf þingsins. Ég vil svara kalli hjálparstofnana Sameinuðu þjóðanna sem hafa sent út neyðarkall og beðið þjóðir heims um jafnvirði 30 milljarða kr. vegna matarskorts og fátæktar á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna.

Ísraelsstjórn hefur hafnað tillögum um nýjan friðarsamning. Grunnurinn að friði er að komið verði á réttlæti í Ísrael og Palestínu og ég kalla eftir virkum stuðningi ríkisstjórnar Íslands við að stuðla að þessum friði, að styrkja Palestínumenn til að ráða yfir eigin landi og njóta þar mannréttinda. Það hefur ekki verið um langan tíma og ástandið versnaði til muna eftir síðustu þingkosningar í Palestínu þegar Hamas-samtökin komust þar til valda og þjóðir hins vestræna heims með Ísrael í broddi fylkingar hafa sett á viðskiptabann og viðskiptaþvinganir enn frekar en verið hafa þannig að palestínska þjóðin er að svelta fyrir framan augun á okkur.

Hún sveltur og hún líður mikinn skort. Það er ekki lengur hægt að þola það ástand sem er á þessu svæði og okkur ber skylda til að bregðast við með því að svara þessu ákalli. Til að koma í veg fyrir að heil þjóð verði murkuð niður fyrir framan augun á okkur þurfum við að stuðla að því að Ísraelsmenn láti af þeim yfirgangi sem þeir hafa komist upp með á landi Palestínumanna. (Forseti hringir.) Ég minni á tvö þingmál um stuðning við Palestínumenn, að koma á færanlegri sjúkrastöð og að íslenska ríkisstjórnin fordæmi múrinn sem Ísraelsmenn eru að reisa til varnar sínu eigin svæði.