133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

Sundabraut -- ástandið í Palestínu.

[09:38]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að nú hefur komið í ljós að jarðgangalausnin undir Sundin er svo hentug sem raun ber vitni. Ég rifja það upp að það var Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi sem barðist fyrir því að göngin yrðu sett í umhverfismat. Ég tek alveg undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að þetta eru jákvæðar fréttir fyrir Reykvíkinga. Hins vegar verður það að koma hér fram þegar hann heldur því fram að þingmenn Samfylkingarinnar hafi lagst gegn þessu að ég hef ítrekað talað fyrir gangalausn varðandi þennan kafla Sundabrautarinnar.

Það þarf sömuleiðis að koma fram að það er hrein blekking hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þegar hann ber sér á brjóst, reigir sig eins og hani og þykist hafa verið sérstakur fylgismaður þessarar lausnar. Það kom fram í sjónvarpsþætti í annarri viku maí í vor að þessi hv. borgarfulltrúi var á móti gangalausninni vegna þess að hann taldi að umhverfismatið sem göngin þyrftu að fara í yrði til þess að tefja brautina. Það þýðir ekkert fyrir þennan hv. þingmann að koma hingað og reigja sig og reyna að halda því fram að þetta sé eitthvað sérstaklega honum að þakka og frumkvæði hans þegar þessi ágæti þingmaður lagðist gegn því. Það var Dagur B. Eggertsson og hann hlaut fyrir það skammir af hálfu þessa hv. borgarfulltrúa og þingmanns.

Hins vegar skal því líka til haga haldið að þá var annað uppi hjá borgarstjóranum í Reykjavík sem nú er, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, sem tók undir þetta og sagði að mætti skoða.

Frú forseti. Nú hefur komið í ljós að gangalausnin er miklu ódýrari en menn væntu áður. Hún mun líka leiða til þess að áferðin á yfirborði verður miklu betri vegna þess að það þarf ekki sömu tengimannvirki. Lífríki í Sundunum er líka betur borgið og að öllu leyti frá sjónarhóli umhverfisverndar er þetta betra. Ég skora á hæstv. samgönguráðherra að fara þessa leið og hlusta ekki á úrtöluraddir innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna.