133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

350. mál
[09:58]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um réttarbætur til aldraðra og öryrkja, breytingar á almannatryggingalögunum sem ríkisstjórnin lagði fram og hefur gert töluverðar breytingar á frá því að frumvarpið var lagt fram. Tillögur stjórnarandstöðunnar hafa gengið lengra en þær bætur sem ríkisstjórnin og stjórnarliðar hafa lagt til. Við byggjum tillögu okkar á þeirri velferðartillögu, þingsályktunartillögu, sem lögð var fram í upphafi þings og byggir á nýrri tekjutryggingu, þ.e. að frítekjumark atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði, að ráðstöfunarfé, vasapeningar vegna dvalar á stofnunum, hækki, að farið verði í að skilgreina neysluútgjöld lífeyrisþega sem grunn að þessum tekjutryggingum, og að afnumin verði með öllu og að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka.

Þetta er sá grunnur sem við byggjum breytingartillögur okkar á. Við munum greiða þeim tillögum atkvæði okkar sem eru umfram það sem var í upphafi þessa samkomulags og veita þeim tillögum brautargengi. Það þarf að ganga lengra en hæstv. ríkisstjórn hefur gert fram að þessu. Það má ekki dragast til 2010 að ná fram þeim kjarabótum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það þarf að gerast nú, um næstu áramót. Út á það ganga okkar tillögur.